20.7.2016 | 19:46
Rósakálið sigrað
Allt frá miðjum níunda áratug síðustu aldar hef ég reynt að borða rósakál því það ku vera bráðhollt. Mér hefur ekki þótt það gott, fundist það beiskt og stundum með myglukeim. En ég hef ekki gefið mig heldur prófað það af og til, aftur og aftur, líkt og ráðlagt er með matvanda krakka. Með þessu móti tókst mér að borða tómata þó ég steyfi þá ekki úr hnefa. Ég ólst upp sem matvandur krakki og sú sjálfsmynd loddi lengi við mig þó inneignin fyrir henni sé löngu uppurin. Ég verð stundum agndofa þegar matargestir okkar byrja að tína af disk sínum eitthvað sem þeir vilja ekki úr réttinum eða afþakka hið prýðilegasta meðlæti.
En nú hefur rósakálið verið sigrað því ég hef fundið eldunaraðferð sem gerir það ljúffengt fyrir minn smekk. Hér var rósakálið sótt frosið úr poka og síðan ofnsteikt eftir að hafa verið velt upp úr blöndu af ólívuolíu og balsamik sírópi með saltlús. Síðan er það sett á bökunarpappír í eldföstu formi. Það rennur nokkur safi af því svo þess vegna finnst mér hentugra að hafa það frekar í formi en á plötu. Til að bæta um betur má hafa rauðlauk með í forminu. Ofnhitinn er 175¨C og það dugar að elda rósakálið í 20-25 mínútur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.