Súkkulaðikaka með sykurrýru kremi

Súkkulaðikaka með sykurrýru kremi

Ég hef bakað sömu súkkulaðikökuna í áratugi, djöflatertu úr uppskriftabæklingi Osta- og smjörsölunnar. Hún hefur alltaf staðið undir nafni, verið syndsamlega góð. Nú prófaði ég aðra uppskrift sem mun veita hinni harða samkeppni. Þær eru þó svo ólíkar, bæði í aðferð og áferð, að ég myndi telja það frekar til fjölbreytni að hafa báðar uppskriftirnar í gangi. Djöflatertuna hef ég alltaf hrært í matvinnusluvél því mér finsnt hún ekki verða eins góð ef ég nota hrærivél.

Sérstaða þessarar köku er kremið sem í er einungis suðusúkkulaði, sýrður rjómi og vanilla. Í 100 gr af suðusúkkulaði er innan við helmingurinn sykur og það verður að teljast lítið í 2 dl af kremi. Sýrði rjóminn gerir kremið frísklegt og leyfir súkkulaðibragðinu í kökunni og kreminu að njóta sín að fullu. Uppskriftin er héðan.

Kökudeigið:

  • 1 bolli hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1/2 bolli ósætt kakóduft
  • 3/4 tsk lyftiduft
  • 3/4 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk gróft salt
  • 1 stórt egg
  • 1/2 bolli nýmjólk
  • 1/4 bolli ólívuolía
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1/2 bolli sjóðandi vatn (eða heitt, lagað kaffi)

Kremið:

  • 1 bolli (120 gr saxað suðusúkkulaði)
  • 1/2 bolli sýrður rjómi
  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Hitið bakaraofninn í 175¨C. Fóðrið ferkantað form sem er 20x20 cm með smjörpappír, berið þunnt lag af feiti á hliðar og botn.
  2. Blandið saman þurrefnum: hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, matarsódi og salt og sigtið saman í hræriskálina.
  3. Bætið við eggi, mjólk, olíu og vanillu. Hrærið á litlum hraða þar til þetta hefur blandast saman. Aukið þá í miðlungshraða og hrærið í 2 mínútur.
  4. Hrærið heitu vatninu (kaffinu) varlega saman við. Athugið að deigið verður mjög þunnt.
  5. Hellið deiginu í formið. Bakið í 35 til 40 mínútur eða þar til tannstöngull sem stungið er í kökuna miðja kemur hreinn úr henni aftur.
  6. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í forminu í 10 mínútur. Lyfið kökunni úr forminu með því að grípa í pappírinn og látið hana kólna á grind þar til kakan nær stofuhita.
  7. Búið til kremið á meðan.
  8. Setjið brytjað súkkulaðið í skál sem má fara í örbylgjuofn. Hitið þar súkkulaðið á hálfum krafti í 30 sekúndur í senn og hrærið vel á milli með sleikju þar til súkkulaðið hefur bráðnað alveg. Hrærið súkkulaðið áfram af og til þar til það hefur kólnað að stofuhita.
  9. Hrærið sýrða rjómann í sundur í skál með sleikju og bætið kældu súkkulaðinu saman við hann ásamt vanillu þar til það blandast vel og farið að léttast.
  10. Smyrjið kreminu á kalda kökuna, skerið í bita og njótið. Vissara er að geyma kökuna í kæli ef eitthvað verður eftir af henni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband