8.5.2012 | 15:34
Rjómaostakökuklúbbur
Í gærkvöldi hittist nýr rjómaostakökuklúbbur heima hjá mér í fyrsta sinn og borðaði heimabakaða rjómaostaköku. Slíkar kökur eru mitt eftirlæti, sjaldfengnar hér á landi enda engu líkar. Það er ekki þrautinni þyngra að baka þær en samt hefur aðeins búðingsættað rjómaostakrem með matarlími náð að festa sig í sessi á kökuborðum landsmanna.
Ég bauð upp á New York ostaköku með jarðaberjamauki og rann hún ljúflega niður yfir spjalli um framtíðardrauma þessa metnaðarfulla kökuklúbbs. Planið er að reyna sig við hinar ýmsu bökuðu rjómaostakökur sem við skiptumst á að baka og bjóðum svo hinum í klúbbnum upp á að smakka. Aðeins er bökuð ein kaka fyrir hvern fund og hún verður að duga hvort sem hún lukkast eður ei. Það er enn laust pláss í hópnum og vona ég að okkur takist að fylla sætin sem takmarkast af því hversu mörgum ein kaka dugar því ekki stendur til að leggja stórbakstur á þátttakendur.
Myndin er af minni köku. New York kakan er algjör grunnur, einföld að innihaldi, látlaust hnossgæti fyrir hreintrúaða aðdáendur rjómaosts.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.