28.4.2012 | 21:53
Súrdeigssigrar
Súrdeigsbaksturinn hefur heldur betur náð sér á strik. Eftir nokkrar tilraunir hef ég dottið niður á uppskrift sem tekst nokkuð vel hjá mér og þá segja hinir þaulvönu að ég skuli halda mig við hana á meðan ég þjálfast í bakstrinum. Þó ég sé alvön gerbakstri og nokkuð lagin við hann þá gilda önnur lögmál um súrdeig og það tekur tíma að ná valdi á handtökum sem tilheyra þessu hráefni. Brauðið sem ég hef bakað síðustu skiptin kallast Vermont brauð og uppskriftin er hér. Innihaldsefnin eru aðeins fjögur: hveiti, rúgur, vatn og salt. Svo koma hér myndir af brauðunum:
Glíman snýst um að ná valdi yfir þeim breytum sem hafa áhrif á áferð skorpu og brauðs, lit, lyftingu, holur og bragð. Allt byggir þetta á nákvæmni í samsetningu og tímasetningum, réttri meðhöndlun deigsins, aðstæðum í bakaraofninum og veðurfari (!). Eldhúsið mitt er á góðri leið með að breytast í tilraunastofu. Þegar ég hef verið lengi dags úti við finn ég á lyktinni þegar ég kem inn að á þessu heimili er ræktað súrdeig.
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:15 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa grein þína Ólöf, þar sem ég er orðin eftirlaunaþegi og hef ef til vill tíma frá tölvunni og heimilinu til að gera svona tilraunir hef ég nú addað þessari uppskrift í tölvuna hjá mér, og ég mun örugglega prófa þetta seinna í haust, þegar ég hef meir tíma. Frábært alveg.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.4.2012 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.