13.12.2011 | 21:12
Osso Buco súpa
Kvöldmaturinn var Osso Buco súpa eftir uppskrift taste.com.au . Þetta er einstaklega einföld matreiðsla á ódýrum rétti, líklega rétt innan við 1.000 krónur þessi skammtur sem dugði fyrir þrjá með ristuðu brauði. Hér fylgja myndir af frumraun minni og leiðbeiningar með uppskriftinni á íslensku eins og ég eldaði hana.
1/2 kíló Osso Buco
1 msk olía
1/2 saxaður laukur
1 kramið hvítlauksrif
2 gulrætur í sneiðum
1 lítri nautakjötssoð (eða vatn og soðteningur)
1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan kryddaðir)
1 lítið lárviðarlauf
svartur, nýmalaður pipar
Kjötið er brúnað létt í olíunni á pönnu í nokkrar mínútur. Kjötið svo sett í pott ásamt öllum hinum innihaldsefnunum og látið malla við vægan hita í einn og hálfan tíma. Þá er potturinn tekinn af hitanum. Kjötið er fært upp á disk, kroppað í sundur frá beininu með göfflum og sett aftur út í súpuna. Maturinn er tilbúinn.
Gott er að skera í himnuna sem umlykur kjötsneiðarnar svo það verpist minna upp á þær við steikingu. Stækka má uppskriftina upp í kíló af kjöti, bæta við hinum helmningnum af lauknum og hálfum lítra af soði til viðbótar. Það kemur vel út að strá nýrifnum parmesanosti yfir súpuna í disknum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.