Um vloggvinnslu - Röndótt efni

Í færslunni hér að ofan er nýjasta vloggið. Það er smá basl að fá það til að birtast á moggablogginu með ritaðri færslu. Ég er að reyna að finna út úr því en ef það er ekki á forsíðunni þá er þetta tengill á færsluna sem má smella á eða með því að fara beint á Vimeo Ég fæ "embedded code" ekki til að virka þegar ég lími hann inn í HTML-haminn. Leiðbeiningar vel þegnar frá kunnugum.

Í þessu vloggi fjalla ég um það litla safn sem ég á af röndóttum efnum. Þetta er mikil framför frá fyrra myndbandi hvað varðar hljóðupptöku og lýsingu. Svo eru þarna líka tilraunir til að vinna viðbætur, s.s. kynningarspjald með hljóðeffektum og innsettar ljósmyndir með bakgrunnsuppfyllingu. Þetta er líka heimatilbúið, meira að segja hljóðið úr minni eigin saumavél í upphafi og niðurlagi. Aftur setti ég enskan texta. Það hefur tekið mig viku að gera þetta myndband. Upptakan tók þó ekki meira en eina og hálfa mínútu í annarri atrennu. Það kalla ég gott.

Hljóðið tók ég upp aukalega á tölvuna mína, felldi það svo að hljóðinu í myndbandsupptökunni og skipti svo út hljóðrásum. Lýsingin eru loftljósið og svo tveir borðlampar á hreyfanlegum örmum. Ég setti ljóssíur (úr sníðapappír auðvitað) yfir perurnar. Mér gekk ekki að snúa öðru ljósinu þannig að ekki yrði endurkast í gleraugunum. Tel mig þó vita hvernig ég á að fara að því, snúa ljósinu enn meira frá og setja hvítt spjald á vegginn á móti mér í staðinn til að endurkasta birtunni af ljósinu á mig.

Þetta vlogg hlóð ég inn á Vimeo í stað Youtube. Vimeo notkun er háð því að notandi hafi gert myndbandið sjálfur eða átt stóran þátt í gerð þess. Ég verð að hreykja mér af því að ég gerði nánast allt myndbandið sjálf. Eiginmaðurinn stillti hljóðrásirnar saman því hann er svo vanur að gera það og nú kann ég það. Allt annað er mitt verk. Svo ég uppfylli örugglega notkunarskilmála Vimeo. Það væri ofurgott ef mér tækist að gera tvö vloggskot á mánuði. Ef lesandinn hefur tillögur að viðfangsefni til upptöku, s.s. spurningar sem ég gæti svarað eða sýnt handbragð til skýringa, má gjarnan senda mér skeyti í athugasemdum hér fyrir neðan. Myndbandið verður þó aldrei lengra en ein og hálf mínúta að hámarki. Það er með vilja gert því sjálf nenni ég tæpast að horfa á lengri myndbönd á netinu nema viðfangsefni þeirra skipti mig máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband