19.11.2011 | 09:28
Vídeóblogg og vinnuaðstaða
Hér neðar er vídeóblogg um saumaverkefnið sem ég er að vinna í núna.
Uppsetningin á vinnuberginu er smátt og smátt að slípast til. Þegar ég byrjaði á teiknivinnunni sem ég tala um í myndbandinu kom á daginn að vinnuborðið er enn of lágt. Það er 85 cm á upphækkunum sem ég taldi að yrði mátulegt þar sem ég er ekki meðalmanneskja á hæð. En borðið hefur reynst of lágt. Ég þarf að beygja mig smávegis yfir það, sem ég get tæpast gert, og verð þá að styðja mig með vinstri hendi til að bera mig uppi. Ég get hins vegar ekki sett neinn þunga á handlegginn nema kreppa hnefann og leggja hnúana á borðið. En þá verður öxlin skökk því hún ýtist upp og vindingur kemur á bakið. Flatann lófann með boginn úlnlið get ég ekki lagt á borðið til að styðja mig. Besta lausnin er líklega að hækka borðið um 5 cm til að byrja með. Þá er framundan að finna tímabundna lausn á því til að prófa hæðina áður en ég legg út fyrir lengri borðfótum. Hins vegar verður borðið þá of hátt þegar ég sker efni sem er mikil nákvæmnisvinna því þá virka engin strokleður.
Að segja mér að fá mér þá bara rafmagnsborð er álíka hugsunarlaust og að suða í mér að fá mér strípur í hárið. Ég væri til í að fá mér rafmagnsborð ef ég hefði tekjur af því að sauma. Það er ekki raunin ennþá. En kona getur alltaf látið sig dreyma. Strípurnar eru hins vegar "off limits".
Athugasemdir
Sæl!
Ein hugmynd:Ef borðið er of hátt þegar þú skerð á því, væri þá ekki sniðugt að þú stæðir á einhverri upphækkun á meðan, fjöl eða þ.u.l.?
Kveðja, Hellen
Hellen Sigurbjörg Helgadóttir (IP-tala skráð) 24.11.2011 kl. 12:16
Það er heillaráð, Hellen. Takk, mín kæra.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 24.11.2011 kl. 15:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.