Sætt mangó kryddmauk

Heimalagað mangó kryddmauk var húsverk dagsins eftir þessari uppskrift Sanjee Kapoor. Hér fylgir hún ásamt myndum af framvindunni í eldhúsinu mínu.
 
1 mangó, flysjað og brytjað
Sykur, sama þyngd og aldinkjötið
1 hvítlauksrif
1, 5 cm biti af fersku engifer
1/2 tsk rautt chiliduft
1/2 tsk garam masala krydd
1/8 tsk edik
Salt eftir smekk til bragðbætis
 
Kapoor mælir með að mangóið sé ekki alveg fullþroskað. Hér eru leiðbeiningar um mangóskurð. Bitarnir eru settir í pott ásamt örlitlu vatni. Ég setti 1 dl af vatni. Soðið við lágan hita undir loki þar til ávaxtabitarnir meyrna. Sykri hrært saman við og látinn bráðna rólega. Soðið áfram við lágan hita undir loki.
Mangó ChutneyMangó Chutney
 
Hvítlauksrifið marið og flysjað, engiferbitinn skrældur, kryddið mælt. Ég breytti til og notaði það sem var í skápunum. Ég notaði tandoori í staðinn fyrir garam masala og bita af fersku chili. Þetta er sett í taupoka, bundið fyrir og sett í pottinn. Hér spilaði ég líka af fingrum fram. Ég notaði kaffipoka úr pappír fyrir kryddböggulinn. Ég setti hann tóman í sigti og hellti hann sjóðandi vatni til að hreinsa úr honum pappírsbragðið. Svo fór kryddið í, pokinn vafinn upp og hnýttur saman með tvinna.
Mangó ChutneyMangó Chutney
 
Þetta mallar svo saman. Ég marði aldinkjötið með kartöflustappara þegar á leið. Uppskriftin tiltekur um 15 mínútna suðu eða þangað til áferðin er farin að líkjast sultu. Í lok þessa tíma lét ég sjóða loklaust og þá fór þetta að þykkna. Þá er ediki og salti bætt við og látið sjóða 5 mínútur í viðbót. Uppskriftin tiltekur ekki edikstegund. Ég notaði danskt eplasíderedik. Kryddbögglinum er svo fleygt.Mangó Chutney
 
Heitt maukið sett í hreinar, heitar glerkrukkur og lokað. Sjáið nú bara þetta fallega gullmauk. 
Mangó Chutney
 
Og hvað fannst mér svo um útkomuna? Þetta er mjög sætt og ekki mikið kryddbragð. Þó ég hafi notað hálfa teskeið ef eplaedikinu fann ég ekkert bragð af því í maukinu. Úr þessu urðu tæplega 700 ml af mauki. Mangó Chutney sem ég hef keypt er í 350 gr krukkum sem kosta á sjötta hundruð krónur. Mér reiknast til að minn skammtur hafi kostað í kringum 350 krónur og er magnið næstum tvöfalt á við búðarkrukkuna. Það borgar sig því búa sjálfur til sætt mangó kryddmauk

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hljómar mjög girnilegt! Skemmtilegt að búa til svona myndasögu með uppskriftinni!

Hellen Sigurbjōrg Helgadóttir (IP-tala skráð) 3.5.2011 kl. 21:36

2 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Þú ert nú meiri snillingurinn. Hljómar mjög girnilega.  En heldurðu að ekki sé hægt að komast af með minni sykur í þessari uppskrift?

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 3.5.2011 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband