Námsfólk er ekki grátkór

NámslánNámsfólk er ekki að væla heldur er það að benda á að því verða æ fleiri bjargir bannaðar til að sjá um sig sjálft og standa undir menntun sinni fjárhagslega.

Það er löngu tímabært að bjóða námsfólki í fullu námi að fá lán fyrir framfærslu á sumrin án þess að vera bundið af námsframboði og sérstökum sumarönnum. Eðlilegra væri að lengja viðmið haust- og vorannar enda telst sumarnám við HÍ alltaf til skólaárs vetrarins áður. Atvinnutekjur námsmanns yrðu áfram til frádráttar og fengi hann óvænt vinnu þegar komið er fram á sumar þá yrði dregið frá í næstu úthlutun eins og tíðkast hvort eð er. Í ofanálag eru rannsóknar- og námsstyrkir fyrir fólk í framhaldsnámi afar fáir og rýrir og dreifast heldur ekki jafnt yfir öll fræðasvið.

Reglur LÍN hafa ekki fylgt atvinnuþróun hér á landi. Það er ekki nýtt fyrirbæri að námsfólki gangi illa að fá sumarvinnu. Fyrirtæki hafa í mörg undanfarin ár dregið saman afleysingaráðningar á sumrin. Framleiðslufyrirtækjum sem halda þurfa fullum afköstum árið um kring hefur stórfækkað. Það var byrjað áður en útrásinni þótti hagkvæmara að flytja framleiðsluna út. Ferðaþjónustan virðist ekki var mannaflsfrekur atvinnuvegur yfir háannatímann þrátt fyrir að hótelum fjölgi eins og myglusveppum. Sveitarfélög byrjuðu að draga saman seglin í sumarstörfum fyrir mörgum árum. Leikskólar sem voru vinsæll valkostur til sumarstarfa loka nú i mánuð á sumrin og draga saman starfsemina án afleysingafólks hina sumarmánuðina. Samsetning atvinnulífsins hefur löngu breyst. Fólk á suðvesturhorninu stekkur ekki svo glatt í fiskvinnslu eða á sjó. Hér er enginn Ísbjörn eða Bæjarútgerð lengur og útgerðin er löngu farin yfir í frystitogara sem skráðir eru á landsbyggðinni og sigla með aflann í stað þess að láta vinna hann í landi. Getur 5 manna fjölskylda skólafólks með 3 ung börn flutt inn á verbúð á Flateyri í 3 mánuði og fengið barnapössun líka á sama tíma og hún borgar leigu af stúdentaíbúðinni í Reykjavík?

Það er mikill misskilningur að háskólanema langi til að vera á námslánum. Það er bara svo fáir sem fæðast með silfurskeið í munninum. Atvinnutækifærum ómenntaðra hefur stórfækkað vegna breyttra atvinnuhátta nútímans svo það er ekki lengur raunverulegur valkostur að mennta sig ekki og fara bara að vinna.

 


mbl.is Háskólanám að verða forréttindi hinna efnameiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband