7.11.2009 | 14:43
Helför og handverk
Gærdagurinn var frídagur hjá mér, lognið á undan storminum. Fyrripartinn var ég á Helfararsafninu. Ég fór þangað í sumar en komst ekki inn á aðalsýninguna. Ég þurfti þó að ljúka því af vegna námskeiðs sem ég sit í haust og á að skila skýrslu um heimsóknina í næstu viku. Í minjagripabúðinni rakst ég á nokkuð sem kom mér á óvart enda skildi ég ekki út á hvað hugmyndin gekk. Þetta var matreiðslubók eftirlifenda helfararinnar. Nú er ég búin að lesa mér aðeins til og skilst að þetta sé minningabók. Uppskriftirnar fylgja frásögnum einstaklinga af reynslu þeirra og viðkomandi leggur til uppskrift frá fjölskyldu sinni. Þetta er kannski ekki svo ógalin hugmynd þó í fyrstu hafi ég hugsað með mér að nú hefði Kaninn farið yfir strikið í skrumi markaðshyggjunnar og helfararsafnið fallið á hælkróknum. Hér fylgir með umfjöllun og sýnishorn úr bókinni. Ég svipaðist um eftir einhverjum bókum um úrvinnslu listafólks og viðbrögð við helförinni en sá ekkert slíkt í hillunum.
Eftir hádegið fór ég á handverkssýninguna Washington Craft Show. Þetta er vönduð sýning og sýnendur valdir inn af dómnefnd. Fyrir vikið er fjölbreytni í verkunum þar sem ekki komast að margir með sömu hönnunina. Ég sá nokkur textílverk auk fatnaðar. Bæði var þar bútasaumur, útsaumur og þæfing.
Hér eru sýnishorn:
Bútasaumur frá Erin Wilson:
Hún sagðist reyndar ætla að nota litavalið á því sem ég klæddist í gær í listaverk. Ég fylgist spennt með því á vefsíðunni hennar.
Bútasaumur frá Carolyn Beard Whitlow:
Útsaumur frá Natalia Margulis:
Applikering frá Chris Roberts-Antieau:
Þæfing og útsaumur frá Susan Levi-Goerlich:
Blönduð tækni frá Shelley Jones
Textílverk frá Susan Hill
Ég set þetta hérna inn til að finna þetta aftur sjálf ef ég þarf að farga einhverju svo farangurinn verði viðráðanlegur við heimkomuna. Deginum lauk svo með máltíð og spilamennsku ásamt nokkrum samnemendum mínum. Boðið var upp á pottrétt og eftirmat að hætti Suðurríkjanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.