Þöggun mennskunnar

Af hvaða meiði skyldi sprottin sú stefna að vilja gæta jafnræðis trúfélaga með því að leggja niður aðstöðu til trúariðkunar? Við fyrstu sýn virðist slíkt vera sett fram af einhvers konar velferðarhugsjón í því skyni að fyrirbyggja að einum sé gert hærra undir höfði en öðrum á samanburðarskala sem þeir er um ræðir hafa ekki smíðað sjálfir. Það er ýjað að göfgi með því að verið sé að verja minnihlutahópa. Það væri vissulega rétt að taka slík sjónarmið með inn í reikninginn ef staðfest stefna slíkra talsmanna væri að efla iðkun andlegs lífs og virða trúarhefðir sem lifandi eru í samfélaginu. En ef þessi sjónarmið eru liður í þöggun margbreytileika mannlífsins, útstrokun tákna og atferlis sem hafa víðtækara innihald og merkingu en samlitur hversdagsleiki, þá eru þau í raun aðför að trúfrelsi og þar með samviskufrelsi þeirra sem iðka sína trú í samfélagi við aðra. Þau gegna því hlutverki að verja þau sem ekki iðka trú, verja þau frá því að finnast að þau tilheyri ekki og séu utangarðs í sammannlegri reynslu.

Þetta verndunarsjónarmið er sprottið af þröngsýni og ótta. Þröngsýni gagnvart því um hvað trúarlíf snýst og ótta við hið ókunnuga. Þau byggja á þeim fordómum að fólk sem trúir sé frábrugðið öðrum, eigi ekki samleið með öðrum og eigi að snauta inn í skáp með það sem gefur lífi þeirra gildi, innihald og tjáningu. Því er hafnað að vitund um hið heilaga sé þeim kær. Þetta er að gerast í þjóðfélagi sem hefur í sívaxandi mæli hvatt fólk til að stíga út úr kompum sem ýmsir fordómar fyrri tíðar hafa hrakið þau inn í. Við dáumst að fólki, og það sem réttu, sem hefur af seiglu haldið sínu striki þvert á þvinganir samfélagsins og lifað sem sannar manneskjur. Við vitum líka af fólki sem hefur bugast undan áþján fordóma. Það er tjón sem við ættum öll að harma.

Það er ólíðandi í nútímaþjóðfélagi að hafðir séu uppi tilburðir til að ritskoða með útstrikun þær staðfestingar sem annað fólk gerir á lífsgildum sínum með því að gera það ósýnilegt á opinberum vettvangi. Það er ekki jafnræði heldur misrétti. Það er kúgun. Í raun er verið að senda þau skilaboð að knýi trúarsannfæring fólks það til að láta gott af sér leiða í veröldinni og taka á samfélagsmeinum með virku framlagi til velferðar þá skuli það gert undir rós, undir veraldlegum merkjum og umfram allt að láta þess ekki sjást merki. Hver er ávinningurinn af því fyrir samfélag mennskunnar?

Ég fagna því þegar Háskóli Íslands kemur til móts við þarfir nemanda sinna, hvort sem það snýr að eflingu náms eða persónulegrar velferðar nemenda og hvet til áframhaldandi umræðu og úrlausna á hverju því sviði er það varðar. 


mbl.is Vilja leggja niður alla aðstöðu til trúariðkunar innan HÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Amen!

Svavar Alfreð Jónsson, 31.10.2009 kl. 21:02

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ólöf, ef að guðfræðinemar vilja halda messur, af hverju geta þau þá ekki bara farið í Neskirkju? Eins og fram kemur í þessari frétt þá benda UVG á að HÍ er menntastofnun en ekki trúfélag. Ég persónulega sé ekkert að því að ýmsir hópar nemenda geti fengið afnot af kennslustofum á meðan það er engin kennsla í gangi, en að yfirtaka stóran hluta aðalbyggingarinnar undir þetta er út í hött. Og hvað finnst þér um þá frekju kristinna manna að leyfa öðrum ekki að nota kapelluna þeirra?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 31.10.2009 kl. 21:14

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta kemur margbreytileika mannlífisns og svo framvegis ekkert við eða jafnrétti trúarskoðana.  Er svo erfitt að skilja það að trúariðkun innan veggja menntastofnana sem ekki hafa trúarlegt hlutverk, hvaða trú sem í hlut á, kemur eiginlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Að vilja troða trú inn í slíkar  aðstæður er trúarfrekja. Og trúarfrekja sem vill trúvæða sem mest af þjóðfélaginu á bara ekki við.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.10.2009 kl. 22:10

4 identicon

"Þetta verndunarsjónarmið er sprottið af þröngsýni og ótta. Þröngsýni gagnvart því um hvað trúarlíf snýst og ótta við hið ókunnuga."

Þessi orð hélt ég að ég mundi ekki heyra frá trúaðri manneskju. Trú elur nefnilega á þröngsýni og ótta og því er þetta eins og að kasta steinum úr glerhúsi að bera þetta upp á aðra. Háskólinn á ekki að ala undir ímyndun og fáfræði með því að halda úti bænahúsi, og miðað við þá þekkingu sem mannkynið býr yfir í dag að þá ætti að sjálfsögðu að vera löngu búið að leggja niður guðfræðideildina í HÍ. Þeir sem telja sig til kristinna einstaklinga eru um 46% þjóðarinnar og í þeirri prósentu má sennilega taka um 30% sem ekkert hafa spáð í málunum og segjast vera kristnir svona af því bara. Þeir voru skráðir sem ungabörn í þessa vitleysu og hafa lítið velt þessu fyrir sér og því er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja afhverju í ósköpunum ríkið er með puttana í þessu rugli. Fólk á að greiða fyrir sín áhugamál sjálft án milligöngu ríkisins.

Fyrsta skrefið í átt að trúfrelsi er að leggja niður ríkiskirkjuna og afnema skipulagða trúarstarfsemi. Ísland ætti að taka forystu í þessum málum og sýna gott fordæmi með því að taka af skarið.

http//reputo.blog.is

Reputo (IP-tala skráð) 1.11.2009 kl. 02:46

5 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Afar skynsamleg umræða, Ólöf, yfirveguð, vel rökstudd. Gott að sjá þig hér á ritvettvangi. Vitnað er í þessa grein í pistli JVJ um málið HÉR!

Kristin stjórnmálasamtök, 1.11.2009 kl. 03:38

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Vel mælt Ólöf. Takk fyrir góðan pistil.

Guðmundur St Ragnarsson, 1.11.2009 kl. 05:30

7 Smámynd: Sigurður Rósant

Ólöf
Af hvaða meiði skyldi sprottin sú stefna að vilja gæta jafnræðis trúfélaga með því að leggja niður aðstöðu til trúariðkunar?
Því er hafnað að vitund um hið heilaga sé þeim kær.

Já, trúaðir vilja meina að trúariðkun megi ekki á nokkurn hátt skerða. Sú vitund er þeim heilög.

En hugtakið 'trúariðkun' nær yfir svo margar gjörðir trúaðra sem skerða réttindi þeirra sem ekki hafa játað trú, þ.e. réttindi ómálga barna. Í kristnum samfélögum þykir sjálfsagt að skíra börn og er það saklaus gjörningur í sjálfu sér gagnvart ómálga barni. En sumir kristnir vilja ganga enn lengra og innræta börnum bænavenjur og síðar uppfræða þau í trú foreldranna og að lokum 'bjóða' barninu að staðfesta skírnina með því að fermast.

Börn Gyðinga, múslima og jafnvel einhverra kaþólskra eru umskorin á unga aldri. Þessi börn eru þar með merkt ævilangt að þau tilheyra ekki sama hópi og flest Vestræn börn. Í kjölfarið kemur svo krafa um sérstaka aðstöðu í sturtuklefum íþróttahúsa og sundlauga. Þá vilja foreldrar að börn þeirra sæki sérstök bænahús og jafnvel sérstaka grunn- og framhaldsskóla ef fjárhagur safnaðar leyfir. Að lokum vilja þessi 'utangarðs' samfélög búa í sér hverfum og mynda þannig eins konar 'gettó' sem er þvert á það sem við Vestrænir höfðum hugsað okkur með því að taka á móti þessu flóttafólki.

Svo, hvernig á að taka á þessum málum, Ólöf?

Sigurður Rósant, 1.11.2009 kl. 15:20

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sigurður Rósant, allt val foreldra í lífsskoðunarmáum hefur áhrif og getur haft mikil áhrif á börn þeirra – líka þeirra foreldra sem eru trúlausir og kenna börnum sínum ekki, að þau eigi aðgang að náðarríkum Guði sem vill hjálpa þeim sem hans hjálpar leita. Kristnir menn eru ekkert verri í þeim efnum en heiðingjarnir.

Svo er Ólöf ekki múslimi og á ekki að þurfa að svara fyrir þá!

Jón Valur Jensson, 1.11.2009 kl. 22:40

9 Smámynd: Sigurður Rósant

Takk fyrir þetta inngrip Jón Valur. En ég er ekki heiðingi og get ekki svarað fyrir þá.

Trúlausir foreldrar, hvort sem þeir búa í samfélögum kristinna manna, múslima eða heiðingja (sem tilbiðja gömlu guðina), verða að sætta sig við þá fræðslu sem viðkomandi samfélag býður upp á.

Best væri, bæði vegna sjálfsagðs réttar ómálga barna, óharnaðra unglinga og bljúgra fullorðinna, að allri innrætingu af trúarlegum toga sé frestað fram yfir lögræðisaldur (18 ára). Ég býst við að þegar fram líða áratugir, aldir eða þúsaldir, verði mönnum ljóst að best, hagkvæmast og réttlátast sé að byrja á því að vernda börnin og seinna meir þá eldri.

En, Ólöf, þetta var ágætis innlegg hjá þér varðandi þessa frétt um hugrekki stúdenta í Háskóla Íslands.

Sigurður Rósant, 2.11.2009 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband