25.10.2009 | 14:01
Veggteppi um þjóðarmorð í vinnslu
Veggteppi sem ég er að vinna að núna fjallar um þjóðarmorð. Þetta er hluti af lokaverkefni við námskeið um guðfræði mannréttinda þar sem viðfangsefni okkar er þjóðarmorð. Við erum að lesa reiðinnar býsn af veraldlegum textum um málefnið og eigum svo að skrifa í lokin 20 síður af okkar eigin guðfræðilegu umfjöllun um það. Mér fannst það satt að setja heldur rausnarlegt þar sem flestir nemendur í námskeiðinu hafa lítinn guðfræðibakgrunn, hafa jafnvel ekki enn lokið grunnnámskeiðum í trúfræði og margir á fyrsta ári. Án þess að gorta þá hefur mér fundist þetta frekar þunnur þrettándi, verandi sjálf á fimmta ári í guðfræði. Það þýðir þó ekki að ég sé eitthvað flinkari en hinir, bara að nálgun efnisins dansar frekar á jaðrinum og gengur lítið á dýptina. Ritgerðin vafðist mikið fyrir mér. Ég var eiginlega bara strand. Þangað til kvöld eitt er ég gekk til sængur og lagðist á koddann. Ég var með hugann við þetta námskeið og frústrasjón mína. Svo ég spurði sjálfa mig, og það ekki í fyrsta skiptið, hvernig ritgerðarefni mitt liti út ef það væri mynd. 20 sekúndum seinna var það komið á hreint, þemað mótað og hönnun veggteppis lokið.
Þá lagði ég til við kennarann, sagðist ekki skilja verkefnið en ég gæti saumað veggteppi og skrifa styttri ritgerð um inntak þess og guðfræðilegan grunn. Hún féllst á það enda samkvæmt stefnu skólans. Mig grunar samt að hún hafi enn háleitari hugmyndir um þessa ritgerð en ég. Það hvarflar ekki að mér að skrifa fleiri en 10 síður. Enda er það vandasamara að skrifa styttri ritgerðir en lengri. Ég fæ þá bara mínus fyrir þennan kúrs.
Verkið mitt fjallar um mikilvægi vitnisburðarins - frásögn og hlustun. Biblíulega grunninn sæki ég í frásögnina af drápi Kains á Abel þar sem blóð Abels hrópaði til guðs af jörðinni. Einnig byggi ég á innreið Jesú í Jerúsalem þegar fólkið hrópaði honum lof og frammámenn vildu þagga niður í því. Jesús sagði af ef þau þögnuðu mundu steinarnir hrópa. Tesa mín gengur út að ódæðisverkin verða ekki hulin. Jörðin, sem við erum sköpuð af og hverfum aftur til þegar við deyjum, geymir vitnisburðinn.
Myndin er af bakgrunninum sem ég er búin að sauma fyrir verkið. Yfir þetta koma fótspor sem halda svo áfram út úr verkinu. Litavalið er innblásið af svart hvítum fréttamyndum en í gráum og grænum tónum.
Athugasemdir
Kíkti á síðuna þína í dag og sá að þú ert aftur farin að blogga! Skemmtileg lausn hjá þér að gera teppi - er ekki sagt að við konur byggjum svo mikið á sjónrænni skynjun? Máttu sýna teppið þegar þú er búin með það?
Hellen Sigurbjörg Helgadóttir (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 23:02
Takk, Hellen. Jú, ég á teppið og geri við það eins og mér sjálfri sýnist. Það er hálfgert plan að sýna þrjú af verkum mínum við skólann í nóvember. Ég var svona hálfgert að gæla við þá hugsun að kannski næði ég að klára þetta fyrir það líka.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 26.10.2009 kl. 00:43
Fótspor mundu breyta teppinu mikið. Mér datt í hug gaddavír. Sendi þér þá hugmynd yfir hafið.
Ragnheiður Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.