New York - Dagur 2

Þessi færsla er færð til bókar eftir á. Sjá skráningardag hér að neðan. Myndir koma síðar.

Fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Eftir að hafa neitað mér um að fara á fætur klukkan rúmlega fimm í morgun þegar ég vaknaði tókst mér að steinsofna til hálf sjö. Ég vaknaði útsofin og hvíld, fékk mér tebolla, trefjastöng og banana á meðan ég glápti á spjallþætti morgunsjónvarpsins, fór svo í sturtu, gerði mig túristaklára og furðaði mig svo á að klukkan var ekki enn orðin hálf níu. Nú í lok dags skil ég ekkert í þessu drolli á mér og hef uppi fögur fyrirheit um að vera farin út fyrir allar aldir í fyrramálið.

 

Fyrsti áfangastaður dagsins var World Trade Center reiturinn. Svæðið er girt af og tjaldað fyrir vegna framkvæmda og því erfitt fyrir gangandi vegfarendur að átta sig á aðstæðum. Eftir að hafa sótt minningarsýningu við Liberty Street sem liggur meðfram reitnum fór ég á Burger King á horninu og fékk mér hábít. Þar smokraði ég mér út í glugga og tók yfirlitsmynd. Eftir að hafa séð fréttamyndir í gegnum árin allt frá falli turnanna árið 2001, rifjað þær upp á safninu og sjá svo gryfjuna eins og hún lítur út í dag með byggingarkrönum, flutningabílum og aðföngum, kom mér til hugar orðasambandið “iður jarðar”. Þarna er nýtt líf í mótun og það sem fyrir augu ber eru innyfli þess. Framtíðarsýn er í mótun, ofin í móðurlífi þjóðarsálar.

 

Ég gekk svo út og fékk mér sæti á torgi við hornið til að ráðfæra mig við leiðsögubókina góðu. Þá fór í gang hver lúðurinn á fætur öðrum með slíkum óhljóðum að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Þar sem hvorki datt né draup af fólki í kring sat ég sem fastast þegar torgið fylltist af byggingaverkamönnum í fullum herklæðum, galsafegnir og sennilega hvíldinni fegnir. Einn settist hjá mér og við tókum tal saman. Ég sagði honum að mér liði eins og ég væri í fráteknu sæti innan um alla þessa verkamenn. Hann bað mig sitja áfram því þetta væri reglubundin brunaæfing og þeir færu allir aftur að vinna von bráðar.

 

Þaðan lá leið mín á Metropolitan Museum of Art. Það var heljarinnar ferðalag, þrjár lestir og góður göngutúr. Safnið var engu líkt. Ég valdi mér lítið brot af því og var það samt meira en nóg og dugði mér ekki dagurinn í þær tvær deildir sem ég vildi skoða. Eftir 3ja tíma viðveru ákvað ég að fara og það tók mig hálfan annan tíma að komast út. Það var alltaf eitthvað sem glapti mig. Heimsóknin á safnið verðskuldar heila færslu út af fyrir sig.

 

Klukkan var orðin 6 þegar ég skreið inn á hótelherbergið. Ég hlóð myndum dagsins inn á tölvuna, 122 talsins og af rælni leitaði ég að opinni nettengingu. Það tókst svo ég talaði smástund við eiginmanninn og náði að setja inn færslu gærdagsins á bloggið áður en línan slitnaði. Eftir tveggja tíma hvíld var orðið tímabært að fá sér kvöldmat svo ég gekk aftur út og beit á jaxlinn þegar þreytan í fótleggjunum ætlaði að gera út af við mig. Ég gekk niður eftir Broadway, enda hótelið á horni Broadway og 73ja Vestur stræti. Svengdin var farin að hrjá mig en alltaf vildi ég ganga aðeins lengra. Ég átti eftir iðrast þess því ég var farin að hafa áhyggjur af því að hníga hreinlega niður enda varla búin að borða síðan fyrir hádegi. Þegar ég var komin niður á Times Square spyrnti ég við fótum og sagðist ekki fara lengra, fór inn á næstu hliðargötu og fékk mér samloku. Lestina tók ég til baka frá 42. stræti. Það er náttúrulega bilun að ganga allan daginn og halda svo áfram um kvöldið eins og enginn sé morgundagurinn. Fjórir dagar í New York eru varla upp í nös á ketti svo ég má hafa mig alla við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa ferðalýsingarnar hjá þér, og gott hjá þér að drífa þig!  Þrír dagar í borgarferð er sko alveg nóg, og fjórir hámark, þá er maður genginn upp að hálsi.  Hafðu það gott!

Hellen Sigurbjörg Helgdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband