New York - dagur 1

Þessi færsla er færð til bókar eftir á. Sjá skráningardag hér að neðan. Myndir koma síðar

Miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Í morgun lagði ég land undir fót í örstutt sumarfrí, 4 daga. Þar sem þetta er fullstutt til að fara heim til Íslands fór ég til New York með rútu. Það var í upphafi draumurinn að komast þangað einhvern tíma, helst á meðan ég væri úti, en þar sem skólafríin fram að þessu hafa verið bókuð í annað og sama verður uppi á teningnum á haustönninni þótti mér þetta kærkomin sárabót. Mig langar svo mikið til að fara heim núna að ég á hreinlega bágt.

Ég var eins og dreifbýlisálfur þegar ég kom inn á Penn lestarstöðina. Þó eiðsögubækur segi manni af öryggisástæðum að líta út eins og maður viti hvert maður sé að fara er mér gjörsamlega fyrirmunað að gera mér upp slíkan kunnugleika á staðháttum svo vel fari. Með slíkum látalátum mundi ég líta út eins og óknyttastelpa, flautandi með stút á vörum, skondrandi augum hingað og þangað á meðan ég mundi sverja af mér allan tilgang með veru minni á brautarpallinum. Í Washington DC hef ég heyrt “utanbæjarfólk” tala um hvað lestarkerfið sé flókið og stressandi. Í samanburði við New York er DC eins og sandkassi á róluvelli! Ég rambaði á rétta lest í fyrstu atrennu og skrímslið spýtti mér upp á yfirborðið á réttum stað á Efri Vestur Síðu. Hótelið er handan við næstu gatnamót.

Eftir að hafa pústað smástund, fengið mér að drekka og strokið af mér svitann skoðaði ég möguleikana á skoðunarafrekum með hliðsjón af því hvaða menningarsetur væru í grenndinni því það styttist í algengan lokunartíma. Ég setti stefnuna á Lincoln Center því leiðsögubókin sýndi á mynd að þar handan við götuna væri American Folk Art Museum.  Aftur reyndi ég við lestina og hafði erindi sem erfiði. Þegar ég kom út að horninu sá ég bara musteri hinna síðari daga heilögu. Enn braut ég reglur leiðsögubókarinnar, dró hana upp á úti á götu, fletti og horfði í kringum mig. Kirkjan stóð sem fastast svo ég ákvað að ganga þangað samt eins og Indiana Jones í trausti þess að mér yrði að þeirri trú minni að dyr safnsins lykjust upp fyrir mér þegar að þeim kæmi. Og viti menn, svo varð!

Byggingin leyndi á sér því hún hýsir líka ítalskt kaffihús og útibú frá Alþýðulistasafninu. Enn reyndi þó á trú mína því á útihurðinni stóð að þetta væri safnabúðin. Inn fór ég, í það minnsta til að spyrja hvar safnið væri því leiðsögubókin var vita gagnslaus. Mér þótti ég himinn hafa höndum tekið enda komin inn baksviðs í musteri hinna síðari daga heilögu. Safnið er þarna með útibú og þar stendur nú yfir myndarleg sýning á listrænum bútasaumsteppum. Safnvörðurinn sagði mér að það væri opið lengi í dag, til hálf átta, svo ég þurfti ekkert að flýta mér. Teppin þarna eru eftir afró-amerískt listafólk sem vinnur með þemu jassins í menningararfi sínum og lífsreynslu. Það var yndislegt að sjá þessi verk. Sum hver voru stórvel hönnuð, önnur skemmtilega útfærð og sum mjög persónuleg.

Safnvörðurinn svo síðar að það stæði yfir önnur quilt sýning í aðalsafninu. Það lá við að það liði yfir mig þegar ég vissi hvað er í boði – ein sú allra frægasta meðal bútasaumara, Paula Nadelstern, er að sýna kaleidoskóp teppin sín. Það verður opið þar lengur á föstudag svo þá ætla ég þangað í sömu ferð og á MOMA, Museum of Modern Art. Það verður heilsdagsferð. Aðrir mega flykkjast á Never Never Land þessa dagana og skæla þegar þeir sjá kvikmyndastjörnur en ég ætla að fara á taugum á föstudaginn og skjálfa við teppin hennar Pálu.

Ég gekk þessar 10 blokkir til baka til að sýna mig og sjá aðra. Skrapp ég inn í tvær smáverslanir og sá að þar er ekki verið að spandera í gólfpláss enda leigan örugglega svimandi há á hvert ferfet. Ég var hungruð sem ljón þegar ég kom til baka á hótelið og hugði mér gott til glóðarinnar enda enn helmingurinn eftir af samlokunni sem ég tók með mér í rútuferðina. Þar sem ég sat uppi í rúmi og japlaði á henni á meðan ég horfði á sjónvarpið varð mér ljóst að ég yrði að fara aftur út fyrir nóttina og kaupa mér eyrnatappa. Það var fólk í næsta herbergi. Mig langar ekkert að vita hvernig þau ætla að verja hvíldartíma sínum í háborg ferðamennskunnar auk þess sem mér veitir ekki að svefnhvíld ef mér á ekki að svelgjast á Stóra Eplinu og leggjast í dvala eins og Mjallhvít þegar ég kem aftur til DC.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband