Beint á ská 1 1/2

Þessi dagur hefur verið frekar á ská. Loftkælingin í húsinu bilaði snemma í sumar og ég var orðin frekar úrvinda um hádegisbilið hér inni í 27 stiga hita og 70% raka. Úti var öllu verra, sama rakaprósenta með 32 stiga hita. Núna klukkan hálf ellefu að kvöldi er hitinn úti enn 30 gráður á celsíus. En aftur að að fyrri stöðu mála. Nýþvegið hárið var farið að klístrast við hálsinn á mér og kveikti hjá mér þá löngun að fara í klippingu. Eftir að hafa útskýrt vel og vandlega fyrir klipparanum hvað ég vildi og hvað ég vildi ekki og fengið það staðfest til baka hvernig hárið yrði klippt gat ég ekki annað en brostið í grát þegar konan færði sig frá speglinum fyrir framan mig og ég sá hvað hún hafði gert við hártoppinn á mér. Konan sagði, "Ekki gráta, það vex aftur." Ég gat bara stunið upp, "Já, en mig langar að lita vel út." Ég held ég hafi núna samúð með útrásarvíkingnum sem við fréttum að hefði eytt 700 dollurum í klippingu. Það hefur sennilega verið þrælslundin mín sem knúði mig til að borga samt þjórfé fyrir klippinguna.

Ég fór í bókabúðina til að hressa mig við, keypti handavinnutímarit og fór þaðan í bakaríið. Ég varð voða glöð að sjá að eina borðið í bakaríinu var laust svo ég ætlaði að setjast niður með tebolla og tímaritið. Þegar röðin kom að mér segir konan á undan mér við samferðafólk sitt, "Við skulum bara setjast við borðið." Ég tróð mér framhjá gólfviftunni og settist í gluggakistuna og hefði svitnað ofan í tebollann ef ekki hefði verið lok á honum.

Úr bakaríinu fór ég í matvörubúðina eftir mjólk og öðru lítilræði sem þegar upp var staðið reyndist 48 dósir af alvöru gosi á sjokkprís og ætti að endast mér til jóla. Það sem ég stend í kassaröðinni er byrjað að kalla á 3 bíleigendur í hátalakerfinu og biðja þá að færa bílana sína tafarlaust af stöðusvæði slökkviliðsins ella yrðu þeir dregnir í burtu og eigendurnir sektaðir. Ekkert bólaði á bílstjórunum og starfsfólkið á kössunum fór að skiptast á skoðunum. Um leið og minn maður byrjar að skanna vörurnar mínar segir hann hátt og snjallt við vinnufélaga sína, "Af hverju leysið þið þetta ekki bara í eitt skipti fyrir öll og skjótið þetta lið?" Svo leit hann á mig, bauð góðan dag og brosti. Ég brosti á móti og reyndi að vera viðkunnanleg á meðan mig langaði mest til að hlaupa út úr búðinni. Það sló ekki á kvíðann þegar hann endurtók tillögu sína við mig. Ég var smeykust um að einhver mundi firrtast við, ganga upp að manninum og skjóta hann. Og ef viðkomandi væri jafn óhittinn og ég væri allt eins líklegt að það yrði ég sem félli í valinn.

KattarhárÞegar ég kom heim er kötturinn að míga á gólfið, sennilega af því að hún þekkti ekki lyktina af kamrinum sínum því ég setti aðra tegund af sandi en verið hefur. Það var ekki mér að kenna, þetta var það sem eigendurnir skyldu eftir. Ég hasta á köttinn og stugga við henni, hundurinn verður æstur og stekkur á köttinn, kötturinn hvæsir, stekkur í burtu og hundurinn á eftir geltandi. Ég fór á eftir þeim báðum, henti hundinum út í garð og þreif svo upp eftir köttinn. Þegar ég er búinn að ganga frá vörunum kemur kötturinn mjálmandi. Ég gruna hana um græsku og elti hana. Þá var hún búin að skíta á sama stað og míga aftur við hliðina. Ég varð ekki glöð. Ég varð svo hundleið á þessu húsi og vildi bara komast í burtu. Ef kötturinn gerir þetta aftur þá fer ég með hann í klippingu þar sem ég fór í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband