10.8.2009 | 01:47
Biðlað til Baltimore
Þessa helgi lagði ég land undir fót og heimsótti vinkonu mína í nágrenni Baltimore. Það er um klukkutíma akstur til hennar og fór ég á fararskjóta búnum leiðsögutæki. Hún hafði lagt til að ég færi ákveðna leið til að forðast alverstu þjóðvegina. Þegar ég kom til hennar og lýsti ökuferðinni kom á daginn að ég hafði að vísu sloppið við stóran kafla af öðrum þjóðveginum en í staðinn farið annan eins, ef ekki sýnu verri. Þeim hjónum þótti mikið til koma að ég væri enn til frásagnar óskjálfandi eftir jómfrúarakstur á bandarískum þjóðvegi með 4 til 5 akreinar i báðar áttir þar sem nánast enginn ekur við hraðatakmörk. Ég hafði haldið mig við akreinina lengst til hægri því þar eiga ökumenn að halda sig sem virða ökuhraðann eða þurfa að fara hægar. Mér varð um og ó þegar þúsundhjólatrukkur með mannhæðarbil undir tengivagninum kemur blússandi aftan að mér og blikkar ljósum í gríð og erg eins og ég væri fótgangandi. Ég ók áfram samviskusamlega á mínum réttu 55 mílum og huggaði mig við það að ef eitthvað kæmi fyrir mundi trukkurinn aka yfir mig svo ég slippi milli hjólanna. Trukkarinn gaf sig á endanum, færði sig og skaust svo framúr eins og hann væri eftirlýstum í 15 fylkjum. Mikið var ég glöð þegar ég náði afgömlum og beygluðum vörubíl sem lallaði á 50 mílna hraða svo ég þurfi ekki lengur að réttlæta ökuhraða minn með löghlýðni eða skynsemi.
Í gær og dag fórum við stöllurnar svo á listasöfn í Baltimore. Við fórum í Baltimore Museum of Art sem á stærsta safn verka eftir Matisse, um 400 listaverk, sem systurnar Cone söfnuðu enda nánir vinir listamannsins. Þar sá ég frumgerðir frægra verka Matisse, bláu og bleiku nektarmyndirnar.
Þar sá ég líka frumgerð af öðru þekktu listaverki, Móður og barni, sem víða er til sem útlínuteikning. Myndin er mjög falleg, litirnir mjúkir og hlýir. Ég set hér inn ljósmynd sem ég tók á ská til að draga úr endurvarpi á glerinu sem er yfir myndinni.
Á fjörur okkar rak eitt af fáum eintökum í yfirstærð af Hugsuðinum eftir Rodin.
Síðast, en ekki síst, gekk ég svo fram á skúlptúr eftir Ólaf Elíasson, Flower observatory, frá árinu 2004. Inni í verkinu speglast ljósbrot sem í kviksjá. Ólafur er þarna í ekki ómerkari félagsskap en Andy Warhol sem er upp um alla veggi í rýminu, m.a. Campell dósasúpan.
Athugasemdir
Góðan dag
Mér finnst spennandi að fara með þér á söfn gegnum bloggið þitt. Er dósasúpan hans Warhol stór?
Ragnheidur Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 09:04
Gaman að lesa og skoða, ég hef einu sinni komið til Baltimore og gisti þá á hóteli sem var við hliðina á stóru molli, á milli var göngubrú sem kom sér vel. Það lá við að við vinkonurnar færum hlaupandi út í náttfötunum á morgnana til að byrja að versla. Já þetta var mikil verslunarferð enda dollarinn hagstæður og mikið gaman hjá okkur.
Kveðja til þín ...
Maddý (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.