6.7.2009 | 02:00
Þjóðhátið
Þjóðhátíð hinna bandarísku hélt ég upp á með innfæddum við hjarta þjóðrækninnar, Washington minnismerkið í Washington DC í gær. Þar beið ég með fjöldanum eftir hinni árlegu flugeldasýningu. Það spurði mig kona sem ég rakst á seinna hvort það hefði verið mikil þvaga niðri í bæ og ég sagðist í sannleika ekki fær um að leggja mat á það. Það var bara fullt af fólki. Það var stappað en ég fann ekki fyrir því fyrr en allt var afstaðið og ég lagði af stað á lestarstöðina. En það var líka hluti af stemmingunni. Ég hefði ekki viljað missa af þessu fyrst ég var í grenndinni á annað borð.
Þetta mikla opna svæði, The Mall, gefur möguleika á mannfagnaði við ýmis tækifæri. Ætli þetta sé ekki þeirra Þingvellir?
Fólk kom vel undirbúið með góðum fyrirvara og lét fara vel um sig á meðan það beið. Öryggisgæsla var ströng og til að komast að minnismerkjunum sjálfum þurfti að fara í gegnum öryggisleit. Biðröðin var míla á lengd að mati nærstaddra. Ég lét mér duga að vera fyrir utan girðingu með ágætis útsýni í félagsskap ókunnugra rólyndismanneskja. Ég hafði verið vöruð við að það yrði mikil fyrirferð í fólki og læti. Ég kannski svo vön óstýrilæti Frónbúa að ég kalla ekki allt ömmu mína. Hér telst það reyndar ókurteisi að ganga með innkaupakerru á milli hillu og manneskju sem stendur við hilluna á móti og skoða úrvalið svo maður þarf að muna að biðjast afsökunar. Mér hefur fundist þetta fáránlegt en stóð mig svo að því að afsaka mig þegar ég þurfti að þvera sjónlínu í íslenskum stórmarkaði í síðustu heimdvöl minni.
En án allrar afsökunar, hér koma nokkrar myndir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.