4.7.2009 | 14:12
Kapellánsblogg
Hér er slóð á annál sjúkrahússkapelláns, Marshall, sem gæti gagnast fleirum en mér á sviði klínískrar sálgæslu. Hér er færsla frá honum sem fjallar um að biðja með sjúklingum. Þar vísar hann í mál sem kom upp þegar kapellán var sagt upp störfum vegna þess að hann bað ófrávíkjanlega í nafni Jesú. Þetta er ekki einfalt mál vegna þess að veröldin getur verið flókin. Það hafa verið skiptar skoðanir um fyrirbænir í námshópnum mínum. Sjálf bið ég yfirleitt ekki með sjúklingum nema þeir biðji mig um það og þá spyr ég hvort þeir vilji að við biðjum hér og nú eða að ég geymi þau í bænum mínum. Þetta er ekki "ein stærð hentar öllum" og maður veit aldrei fyrirfram hvað sjúklingar telja að geri sér gott. Beiðni um fyrirbæn hefur líka komið úr ólíklegustu átt, frá fólki úr gjörólíkri trúarhefð.
Siðfræðitexti sem við lásum velti m.a. upp þeirri spurningu hvort það væri verjanlegt að biðja fyrir sjúklingi án hans vitundar og samþykkis í okkar einkabænum. Ég elska svona spurningar. Þær teygja og toga tilvísunarramma okkar, setja forsendur okkar í annað samhengi. Frá siðfræðilegu sjónarhorni sé ég ekkert rangt við að biðja fyrir sjálfri mér varðandi samskipti mín við einstaka sjúklinga. Enda veitir mér stundum ekkert af því. Hvað varðar að hafa sjúklinga á eigin lista yfir dagleg bænarefni ætla ég ekki að tjá mig heldur vonast eftir málefnalegum og gagnlegum athugasemdum sem ég má geyma með mér.
Athugasemdir
Þegar ég kynntist þessari umræðu í fyrsta skipti fannst mér hún alveg fáránleg. Maður hugsar oft ekki út fyrir eigin kálgarð og kemst svo að því að það eru ekki alltaf til einföld svör og "ein stærð sem hentar öllum." Það sem ég á ennþá erfitt með að skilja er hvernig hægt er að stjórnast í því fyrir hverjum maður biður! Ég get ekki sagt að ég elski svona vangaveltur eins og Ólöf gerir... En þær eru vafalaust gagnlegar þegar allt kemur til alls.
Ætli að þau sem vildu biðja mér bölbæna myndu fyrst spyrja mig hvort ég vildi það? Skora á þig, Ólöf, að velta þessari spurningu fyrir þér!!
Annars allt gott héðan og sumarfrí að skella á og þar með ritgerðarsmíð ...(verð kannski of löt til að nenna neinu en skal þá hugsa til þín sem ert á fullu í námi).
Bestu kveðjur
Ragnheiður Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 21:56
Ragnheiður! Sterkur punktur þetta með bölbænirnar! Ætla að eiga hann inni ef þetta kemur aftur til umræðu.
Annars, endalega - taktu mig þér til fyrirmyndar hvenær sem er ef það kemur þér að gagni. Gott gengi með ritgerð og letiköst, kæra vinkona
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 6.7.2009 kl. 01:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.