Hundakúnstir III

Við vorum bara tvær í húsinu, tíkin og ég. Hún lá upp við útidyr á hörðu steingólfinu. Ég gerði mér í hugarlund að hún væri þar til að verja innganginn og verja mig. Sennilega var hún þó frekar að bíða eftir að húsmóðir sín kæmi heim. Ég átti allt eins von á því að heimasætan hrasaði um hana þegar hún mundi staulast heim um nóttina. En engir dynkir eða upphrópanir heyrðust að ofan svo sennilega hefur þetta allt farið á besta veg.

Chesapeake Bay RetrieverTíkin og ég fórum í gönguferð niður í miðbæ um síðustu helgi, spókuðum okkur eins og fínar dömur, hlustuðum á útitónleika og settumst að endingu niður utan við írskan pöbb. Hún fékk vatn í skál og ég hvítvínsglas. Ég hefði ekki trúað því ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að siða hund til að hlýða mér. Hún fór á hlýðniþjálfunarnámskeið fyrir einhverjum árum og er núna um 7 ára. Hún hefur ekki fengið neitt viðhald á því, að sögn húsmóðurinnar, sem bætti því við að það kæmi ekki að sök því tíkin væri svo löt. Mér finnst hún viljug og forvitin. Það er þó lítill leikur í henni, kannski vantar hana bara nýbreytnina. Helst mundi ég vilja koma henni upp á að eiga sér bæli, mér finnst eitthvað svo ómögulegt að sjá þennan stóra hund liggja á beru gólfinu. Hún bara þýðist ekki samanbrotið teppið sem ég hef verið að bjóða henni. Ef einhver lumar á ráðum til þess að koma henni á bragðið þigg ég gjarnan innlegg í athugasemdum. Dýrið er af kyni Chesapeake Bay Retriever og er áþekkt skepnunni á myndinni.

Í okkar venjulegum göngutúrum hefur tíkin mikið til haft sína hentisemi og framan af var bara ströggl að fara með hana í göngu. Hún bara stóð kyrr þar sem henni sýndist og bifaðist ekki. Auðvitað vildi hún rjúka upp um alla garða og á eftir öllum íkornum en undirrituð hélt þétt í ólina og hleypti ég tíkinni aldrei lengra frá mér en einn metra og lét ekki bifa mér út af gangstéttinni. Upp á síðkastið var tíkin farin að vera öll önnur, hætt þessu ströggli eins og var, fór af stað þegar ég togaði ákveðið í hana og sagði henni að koma. Svo þegar við fórum í bæinn minnti ég hana á að ganga við hæl og hún gerði það, ég sagði henni að bíða við umferðargötur og hún stoppaði með mér, ég sagði henni að fara að stað og hún gekk með mér. Svo þegar í bæinn var komið settist hún nánast eins og hugur minn, stundum með smá þrýstingi á lend en það var líka allt og sumt. Hún er líka búin að vera í markvissri setþjálfun hjá mér. Ég veit ekki hvort ég er hreyknari af sjálfri mér eða tíkinni. Þegar svo maður gekk hjá og sagði: "Þetta er vel siðaður hundur" ljómaði sálartetrið mitt að innan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband