24.6.2009 | 01:43
Ennþá hér
Níu manneskjur létust í lestarslysi í Washington DC í gær. 80 manneskjur eru slasaðar. Þetta var eitt af þessum hörmulegu slysum sem ættu ekki að geta gerst. Ég sat í lest á sömu línu um svipað leiti og vissi ekki hvað tafði því lestin hélt kyrru fyrir á brautarstöðinni. Fréttirnar sá ég svo þegar ég kom heim. Í morgun tók ég strætó áleiðis á spítalann eins og venjulega. Þegar á skiptistöðina var komið var tengivagninn minn rétt ókominn svo ég ákvað að doka eftir honum og fara að tilmælum yfirvalda um að reyna að komast hjá lestarnotkun í dag. Á meðan ég beið fór kona við hlið mér að ræða við mig um slysið. Henni var brugðið. Það voru margir aukavagnar á skiptistöðinni en engin hreyfing á þeim. Með allar vélar í gangi var hávaðinn gífurlegur þarna undir gólfi byggingarinnar sem hýsir samgöngumiðstöðina. Það var eins og eitthvað lægi í loftinu. Á endanum gafst ég upp á biðinni og gekk niður í lest. Þar var svipaður fjöldi og venjulega en ljóst að fólk forðaðist endavagnana. Sjálf færði ég mig til og fór í næsta vagn. Lestin er ekki vön að staðnæmast svona framarlega. Það var engu líkara en lestarstjórinn vildi komast sem lengst frá stöðinni.
Í morgun spurði svo leiðbeinandinn okkur hvort fólkið okkar væri allt búið að hafa samband og ganga úr skugga um að við værum óhult. Allir jánkuðu nema ég. Það rann upp fyrir mér að hérna úti gáir enginn að mér. Ég hafði hringt í manninn minn heima á Íslandi. Það hefur enginn hringt í hann og spurt eftir mér.
Þetta rann saman við það að á sjúkrahúsinu þar sem ég er í námi eru margir sjúklinganna deyjandi. Eitt verkefna okkar kapellánanna er að kortleggja stuðningsnet sjúklinganna. Vinnuspurningin gæti einfaldlega verið: "Hver gáir að þér?" Upp til hópa segist fólk vera með mjög gott stuðningsnet. Það er sjálfsagt allur gangur á því hvernig það reynist í raun. Þegar dokað er aðeins lengur við hjá rúmstokknum kemur stundum játning sem öðrum er ekki treyst til að heyra. Eða það er borin upp einföld ósk sem öðrum er ekki treyst til að uppfylla. Slík bón var borin upp við mig í dag og það var ljúft að verða við henni. Ég hef lært að þegar allt kemur til alls eru mannlega þarfir ósköp einfaldar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.