13.6.2009 | 01:10
Notendaþjónusta
Voru notendaþjónustufræðin ekki fundin upp í Norður Ameríku? Ég ákvað að ljúka erindum dagsins með því að flytja gemsann minn á milli fyrirtækja. Ég var í tvo klukkutíma í söluskrifstofunni, þar af fóru 45 mínútur allt í allt í bein samskipti við sölumanninn. Allt er gert handvirkt í gegnum síma hjá þjónustudeild, allar beiðnir þarf að hringja inn og stafa margsinnis það sama upp aftur og aftur. Ég yrði gráhærð og gott betur ef ég ynni við þetta hér. Þetta fyrirtæki hefur náð að vera árum saman í efsta sæti ánægjulista viðskiptavina með notendaþjónustu. Í raun ætti virkni starfseminnar að vera svo góð að fyrirtækið næði ekki einu sinni inn á listann því fólk þyrfti svo lítið að leita til notendaþjónustunnar. Afrakstur minn af tveggja tíma úthaldi verður að ég get notað símann tvisvar og hálfu sinni meira fyrir sama peninga og þar sem ég hef haft símaþjónustu. Það munar um minna þegar maður þarf líka að borga þegar hringt er í mann, fyrir móttöku sms skeyta og fyrir að hlusta á skilaboð í talhólfinu. Mig munar mikið um það ef CVS tekur aftur upp á því að hringja endurtekið í mig til að segja mér að ég megi sækja lyfin fyrir Jónu Jóns sem eru tilbúin í afgreiðslu þeirra í Flórída. Það tók mig tvö löng símtöl og loks skoriort tölvuskeyti að aflétta þeirri plágu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.