11.6.2009 | 00:44
Kók og prins
Ég var að kyngja síðasta bitanum af Prins Póló sem ég tók með mér að heiman í maí. Með þessu svolgra ég kók enda fer sá drykkur hvað best með kexinu. Þetta var eins konar björgunarhringur í skúffu sem ég gleymdi þar viljandi til síðari tíma. Í dag rann sú stund upp. Það er eitthvert innflytjendapappírsvesen í gangi á spitalanum vegna þess að spítalinn getur ekki vitað hvort manneskjan sem skrifaði upp á heimild mína til námsins hafi heimild til að gefa heimild. Ég spyr nú bara hvort líkleg sé að lögvottuð stofnun feli einhverjum heimild til að skrifa slíkt bréf sem ekki hefur heimild til þess. Með þennan þvergirðingshátt skrifræðisins á bak við eyrað rölti ég aftur yfir á skrifstofuna mína, opnaði póstinn minn og þá blasti við mér öfugsnúningur pappírsflóðsins á Íslandi. Eftir að hafa sent neyðarskeyti með reykmekki og tilheyrandi á öldum ljósvakans þrammaði ég á fund nokkurra sjúklinga, fékk mér hádegismat og svo á fund verkja- og líknarmeðferðarteymisins og bað þau að skjóta mig.
Og þó, ég fór á þennan fund og hafði gagn og gaman af, þrammaði svo áfram milli sjúklinga og svo í strætó. Tók vitlausan vagn, náði þeim rétta á næstu stöð sem var fastur í umferðaröngþveiti, rölti svo um bæinn á meðan ég beið eftir næsta vagni áfram. Og nú er svo komið að ekkert á eins vel við og Prinsinn og kókið.
Athugasemdir
Prince Polo to the people!
Baldur Gautur Baldursson, 11.6.2009 kl. 06:58
Það er gott að kókið og prins pólóið dugðu. Sumir hefðu kannski þurft eitthvað sterkara! Vona að þetta leysist farsællega! Hafðu það gott.
Hellen Sigurbjörg Helgadóttir (IP-tala skráð) 12.6.2009 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.