Inngangsfræði

Þá er lokið kynningarprógrammi fyrir nýtt starfsfólk á sjúkrahúsinu. Það tók tvo daga að kenna okkur að þvo okkur um hendur og læra hin fjögur grunngildi sjúkrahússins sem ég man ekki í augnablikinu hver eru. Við lærðum svo margt fleira að það hið hálfa væri nóg. Að öllum hálfkæringi slepptum þá voru þetta athyglisverðir tímar og margt sem fylgir mér sem vegarnesti út í sumarnámiþð. Það má Kaninn eiga að hann kann vel á svona kynningar. Svo var þarna líka svo skemmtilegt fólk, nýliðarnir.

National Institutes of Health er ekki aðeins stærsta rannsóknarsjúkrahús landsins heldur líka stærsta 250 rúma sjúkrahúsið. Það á ekki aðeins við um húsakostinn heldur líka starfsmannafjöldann. Í gegnum byggingarnar fara daglega 6000 starfsmenn. Sjúklingarnir eru sérstakir fyrir þær sakir að hafa allir verið valdir inn. Þeir eru sennilega upplýstasti sjúklingahópur landsins og hafa vakandi auga með frammistöðu starfsmanna. Þeir eiga það margir sameiginlegt að þessi staður er þeirra síðasta von, ýmist vegna þess að:
- sjúkdómurinn er það fátíður að meðferð fæst óvíða,
- sjúkdómurinn er svo flókinn að fæst sjúkrahús ráða við umfang meðhöndlunarinnar,
- meðferð hefur ekki enn verið fundin upp eða er á tilraunastigi,
- það er ekki almennilega vitað hvað er að þeim,
- og fleira.

Ég hafði einhvern vegin séð fyrir mér svona "ER" sjónvarpsumhverfi þegar ég færi í þetta nám með svaka hasar og endalausum uppákomum. Þetta er ekki þannig staður. Það koma engir babúbílar Sprautustrympabrunandi með fólk í andaslitrunum. Samt hefur þetta sjúkrahús stuðlað að lífsbjörg milljóna um allan heim vegna uppgötvana í læknisfræði sem þar hafa orðið. Mér finnst áhugavert að fá að kynnast sjúklingunum sem þar dvelja. Ég hef á tilfinningunni að þeir séu hörkutól sem geti kennt mér margt. Það kom líka á daginn á námskeiðinu að þetta er eitt af grunnviðhorfum sjúkrahússins - við lærum af sjúklingunum.

Á mánudaginn hefst svo sálgæslunámið. Pappírsvinnunni er víst engan vegin ólokið. Seinni læknisskoðunin af tveimur er á morgun. Það hittir mig reyndar enginn læknir, heldur hjúkrunarfræðíngur sem er búinn að stinga mig nokkrum sinnum, ýmist til að sprauta einhverju í mig eða draga eitthvað úr mér. Mér var boðið upp á að láta geyma einhvern blóðhluta mér að kostnaðarlausu í 10 ár sem nota mætti sem grunnlínu til samanburðar ef ég veiktist og þyrfti slíka samanburðar rannsókn. Ég sá ekki fyrir mér að sena úr "Dr. House" yrði veruleiki í minni tilveru svo ég afþakkaði, aðallega vegna þess að ég er eitthvað tortryggin á lífsýnasöfnun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband