Kanverskur bolludagur

BolluígildiÍ staðinn fyrir bollubakstur þetta árið rölti ég út í sælkerabúð og keypti mér "eclairs". Þó þetta slagaði hátt upp í að vera "besti vinur aðal" og fokdýrt þá jafnast ekkert á við heimabakaðar vatnsdeigsbollur með jarðarberjasultu, þeyttum rjóma og ofan á stökkri súkkulaðibráð úr Síríus suðusúkkulaði. Ég á svo sem súkkulaðið uppi í hillu og rjóma í frystinum en það var eiginlega of mikið fyrir því haft fyrir mig eina. En ég hélt upp á minn konudag með því að fá mér eklers í dag í staðinn fyrir bollur á morgun.

Í gær fór ég á "Píkusögur" í flutningi nemenda við American University í tilefni af V-Deginum. Þetta var stórgóð sýning og stemming í salnum. Mér áskotnaðist frímiði rétt fyrir þsýningu og ákvað að drífa mig enda nýbúin að ljúka einni ritgerð og var við það að vinda mér í næstu. Nú sit ég yfir henni og reyni að draga saman með eigin orðum sérstæða lífsreynslu heilags Antoníusar hins mikla frá Egyptalandi. Hann var "svo sannalega eitthvað annað", eins og Kaninn mundi segja. Við mundum segja að honum hafi ekki verið fysjað saman. Þessi munkur eyðimerkurinn dó 103 ára gamall árið 356 og hafði þá ekki þvegið á sér fæturnar öðru vísi en þegar hann neyddist til að vaða yfir ár sem voru nú óvíða í eyðimörkinni. Hann hélt góðri sjón og öllum tönnum en þær voru víst orðnar frekar slitnar. En það eru þó ekki svona smámunir sem prófessorinn minn hefur áhuga á að lesa um í ritgerðinni minni heldur um afstöðu Antóníusar til efnislegra gæða, veraldlegt líf, líkamans og aríanisma. Svo á ég að poppa þetta upp með útlistun á freistingum sem herjuðu á hann sérstaklega og allri þeirri tælingu freistarans sem hinir trúuðu gátu orðið fyrir á fjórðu öld. Punkturinn yfir i-ið, kirsuberið á kökunni, eru svo dyggðirnar sem þroska skyldi með sér í staðinn fyrir heimsins prjál. En, lesandinn athugi það, þetta er ekki fyrir guðfræðinámið heldur listasöguna sem ég læri í American University.

Það er eitthvað sérlega áhugavert við þessa tengingu "Vagina Monologues" og heilags Antoníusar sem var illa þjakaður af púkum í konumynd , kannski enn frekar vegna þeirrar freudisku innsláttarvillu minnar ofar að rugla saman trúaður og trúður. Það var ekki í fyrsta skiptið. Til að toppa það skrifaði ég fyrst innsláttarvinna. Ekkert rangt við það, merkingarlega séð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Getur ekki verið að heilagur Antóníus hafi einhverntíman verið giftur á sínum yngri árum og því verið bólusettur fyrir konum fyrir lífstíð!  Slíkt hefur gerst veit maður af veraldarsögunni!

Baldur Gautur Baldursson, 23.2.2009 kl. 15:14

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Athanasíus sem ritaði ævisögu Antóníusar fjórum árum eftir andlát hans getur ekki um kvennafar hans nema í freistingaformi eftir að hann var búinn að ákveða að gerast einsetumaður. Af lýsingum að dæma fékk hann ofverndað uppeldi, þekkti ekkert utan foreldra sinna og veggja eigin heimilis og af einskærri þvermóðsku neitaði hann að læra að lesa. Hann fékk aldrei formlega menntun en hlustaði á biblíulestur annarra í gríð og erg og lagði allt á minnið. Var hann með "einhverskonarröskun"?
Foreldrar hans voru í ágætum efnum og falla frá þegar hann er 18-20 ára og hann selur allt til að vera eins og fólkið í Postulasögunni, kemur systur sinni í fóstur hjá helgum meyjum með smá meðgjöf og gaf restina fátækum. Heitast af öllu þráði hann að verða píslarvottur. Hann væri frábært efni í bíómynd. Það væri náttúrlega algjör bömmer ef hann hefði verið giftur eftir allt saman. Ætli það hafi ekki veri óalgengt að tvítugir karlmenn væru enn ógiftir um miðja þriðju öld? Nema hann hafi ekki verið í húsum hæfur.
Það er víst engin sanngirni að bera hann saman við greiningarskala nútímans.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 23.2.2009 kl. 15:47

3 identicon

Gætið verið að maður sé trúaður trúður? Alla vega datt mér í hug fyrirbæri sem talað er um í Rétttrúnaðarkirkjunni - fífl af Guðs náð - . (Á sænsku dåre). Ég tengi þetta fyrirbæri Rússlandi og Dostojevski en man ekki hvar ég las þetta. Kannski finn ég eitthvað um þetta. Læt þá vita með fræðilegum tilþrifum!

Hér er +1 gráða, skýjað og lítill vindur en vont veður víða á landinu. Bestu kveðjur.

ragnheiður sverrisdóttir (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 14:11

4 identicon

Elsku Ólöf!

 Gaman að lesa skrifin þín og leitt að heyra að þú sért búin að vera lasin. Ég lagðist einnig í flensu fyrir rúmri viku síðan og ætla bara ekki að ná þessu úr mér. Er orðin úrkula vonar. Það er varla að maður þori út, hræðslan við að mér slái niður er öllu yfirsterkari.

Hafðu það ávallt sem best.

Með kærri kveðju

Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband