15.2.2009 | 03:19
Menning í öll mál
Það er skammt stórra högga á milli hjá mér í menningunni. Ég var búin að koma mér í þá skipulagsóreiðu að fara tvisvar út að borða sama daginn. Síðast þegar ég fór út að borða hér gerðist það tvisvar á einni viku.
Í hádeginu fór ég á gríska krá og fékk mér pítu með lambakjöti, tómötum og lauk. Hún var með eindæmum góð og sósan hreint afbragð. Þar að auki var ekkert vesen að borða hana. Ég borða pítu helst bara heima hjá mér með dregið fyrir glugga og ljósin slökkt því þetta er subbumatur í mínum höndum. En ég var bara til fyrirmyndar í dag, klíndi engu í andlitið á mér, missti ekkert niður á mig og ekki heldur niður á borðið.
Í kvöld fór ég svo á ítalskan pizzastað og fékk kafbát með kjúklingi, pestó og ólívum. Hann var vel heppnaður, kjúklingurinn mjúkur og safaríkur og pestóið mátulega bragðmikið. Eins og gengur hér þá var þetta tveggja manna samloka svo ég á helminginn inni í ísskáp fyrir morgundaginn. Samlokuátið gekk líka slysalaust fyrir sig. Ég veit ekki hvort þetta er siðfágun á eftir áætlun eða að mér hafi bara farið fram í snæðingi á almannafæri.
Kóreska vinkona mín, Heesung, fór með mér í hádeginu en Madonna, bandarísk skólasystir mín, borðaði með mér í kvöld og er mynd af okkur saman hér neðar. Heesung er löngu búin að gefa bandarískan mat upp á bátinn enda mötuneytið ekki alltaf það besta sem Kaninn getur boðið upp á þegar hann leggur sig fram. Hún var orðin tortryggin á allan mat annan en kóreskan en var til í að prófa líbanska veitingastaðinn sem ég sagði frá í annarri bloggfærslu. Hún var svo alsæl með þá reynslu að nú vill hún framvegis þræða þjóðlega veitingastaði ef á að spandera í slíkt á annað borð. Við fundum í leiðinni írska krá sem við stefnum á síðar. Hversu írsk hún er í raun skal ósagt látið svo við ætlum að fá okkur hamborgara þar. Ég sagðist þvertaka fyrir að fara á McDonalds ef við ætluðum á annað borð að fá okkur hamborgara saman. Það væri bara sóun á upplifuna þó verðið sé tvöfalt. Svo það var afráðið.
Athugasemdir
Yummy! gott gott....
Baldur Gautur Baldursson, 15.2.2009 kl. 20:02
Maður verður bara svangur við þessa lesningu.
Laufey B Waage, 18.2.2009 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.