Brött að braggast

Gínur í góðviðriKvefið fór loksins að láta undan síga í vikubyrjun. Þó ég taki enn hóstahviður vogaði ég mér út í langan göngutúr í dag, enda hékk hitastigið í 22°C. Nú kemur í ljós hvort það er góða veðrið sem leggur mann í rúmið eða ofraun. Á leið minni gekk ég fram á þessar prúðbúnu gínur að spóka sig í góðviðrinu, fjarri góðu gamni á útsölunni inni fyrir á sérsaumuðum tískuflíkum.

Ég gekk frá National Cathedral niður á M stræti í Georgetown. Þó þetta sé ekki nema 3 kílómetra leið þá verður hún drjúg með viðkomu í listagalleríum og áhugaverðum smáverslunum sem hafa yndislegar gluggaútstillingar til að horfa á. Einnig hægir á yfirferðinni hve stutt er á milli gatnamóta og þar þarf yfirleitt að bíða eftir hvíta kallinum. Það eru engir grænir kallar í Washington DC, aðeins hvítir. Hvort þetta er eftirlifandi angi af Suðurríkjastemmingu þessa landshluta skal ósagt látið. En hvíti kallinn hefur eitt fram yfir þann græna: hann kann að telja. Með honum birtist tíminn sem vegfarandinn hefur til að arka yfir. Svo er talið niður og yfirleitt er ekki naumt skammtað. Hér er algengt að fá frá 40 til 70 sekúndur til að komast yfir 4 til 5 akreinar. Það er nú eitthvað annað en heima þar sem maður strandar á miðlínu tveggja akreina eftir 10 sekúndur. Ég legg því til að græni kallinn verði settur á skólabekk og látinn læra að telja.

La MadeleineÍ Georgetown fann ég kaffihús eða því sem næst, La Madeleine. Mér fannst ég himinn hafa höndum tekið að fá þar te úr bolla með undirskál en ekki einhverju pappamáli með lógói. Það er ekkert eðlilegt við að drekka te í gegnum gat á plastloki yfir ísdollu. Teið var nú ósköp venjulegt og ostakakan byrjuð að þorna en mér leist ljómandi vel á mig þarna. Staðurinn er laus við glymjanda og spiluð sígild tónlist.

Á leið minni staldraði ég víða við til að taka ljósmyndir af áhugaverðum formum og mynstrum. Ég er þátttakndi í vinnustofu þar sem við erum að búa til bækur og átti ég fyrir ágætis samsafn af áhugaverðu myndefni fyrir verkefnin en það er gott að hafa úr nógu að velja þegar tengja þarf saman stakar myndir sem mega ómögulega missa sín en vantar þéttara samhengi við hinar myndirnar svo samspilið gangi upp.

Ég þarf svo endilega að fara að setja hér inn hvaða námskeið ég sit þessa önnina. Hér að neðan eru nokkrar myndir úr gönguförinni.

Gamalt hús við Wisconsin Avenue Undir veggwts 109comprRunnarBiðaBörkur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Hannesdóttir

   Stórkostlegur göngutúr, og eitthvað fyrir mig, sem er með algera textil aðdáun, og efnisaðdáun, og fataaðdáun, og og og.

   Fór ennfremur inná blogspot og las skrifin þín um Jobsbók, það hefði verið dýrmætt fyrir mig að rekast á þessar glósur f. 10 árum, en ekki hægt að fárast yfir því.

Sólveig Hannesdóttir, 22.2.2009 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband