Svo bregðast krosstré

St. Elísabet hlúir að sjúkumÞá er mín bara komin með kvef. Það hefur hvorki dottið né dropið af mér í vetur heldur verið við hestaheilsu á meðan skólafélagarnir hafi hrunið niður eins og lýs af kvefpestum, sumir hvað eftir annað. Ég valdi mér heldur betur daginn eða hitt þó heldur. Þriðjudagar eru lengsti vinnudagurinn hjá mér en þá sit ég í tímum frá tíu til hálf sjö. Það vill til að hádegishléð er langt svo ég ætla að leggja mig í matartímanum og hvíla mig.

Stúlka sem var að veikjast var að sniglast í kringum mig í hádeginu á laugardaginn þrátt fyrir að ég gefi það ítrekað í skyn að ég vildi að hún kæmi sér í burtu. Ætli hún hafi ekki bara smitað mig. Hún var að vafstra í því með stöllu sinni að éta hvítlauk og malla engiferte svo líkaminn mundi hætta við að verða veikur. Ég hafði orð á því að sem mamma með reynslu ætti hún að fara í ullarsokkar, finna sér teppi og láta fara vel um sig á koddunum sínum - inni í herberginu sínu - svo hún mundi ekki smita okkur hin. Þá settist hún beint á móti mér og masaði. Ég spurði hana hvort hún gerði sér ekki grein fyrir virkni úðasmits en það var eins og að tala við vegginn. Svo sat hún yfir okkur öllum um kvöldið við kvöldmatinn sem kirkjukonurnar færðu okkur, auðsjáanlega sárlasin.

Nei, ykkar ágæta hefur lokað sig af inn á herbergi og þar verð ég í dag þegar ég er ekki í tíma og þá ætla ég að sitja fjær samnemendum mínum. Nábýlið er svo mikið hér á skólanum að manni ber skylda til þess að gefa gaum að hagsmunum hinna.

Hér er listi yfir verndardýrlinga hinna ýmsu krankleika. Myndin er þaðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Góðan bata!  :)

Baldur Gautur Baldursson, 3.2.2009 kl. 13:52

2 identicon

Hæ hæ Ólöf.  Leiðinlegt að heyra að þú ert að veikjast.  Pesta-tími í gangi þarna hjá þér eins og hérna heima greinilega.  Farðu vel með þig og gangi þér vel í skólanum. 

Brynja Sif (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 21:42

3 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Leitt að heyra þetta. Virginía á heiðurinn á því að flensan kom fyrst hingað í vetur, en þú ert nú reyndar ekki í Virginíu þó nógu nálægt þú sért.  Um að gera að fá nægan vökva, hænsnasúpu og hunang. Hunangi og kanill búa víst yfir miklum lækningar mætti. Gangi þér vel. Hér eru allir sem betur fer hressir.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 4.2.2009 kl. 02:27

4 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ég þakka fyrir kveðjurnar. Sem betur fer er ég ekki með inflúensu, bara kvefpest. Mín remedía er ullarsokkar, lopapeysa, silkiklútur um háls og svo undir sæng.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 4.2.2009 kl. 02:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband