2.2.2009 | 03:06
Útivera
Hér var bongóblíða í dag. Hitinn náði tæplega 17 stigum í hverfinu mínu þegar hæst var. Hitinn hefur hangið við og neðan við frostmarkið um hríð svo þetta var ómetanlegt tækifæri til að vera úti. Ég fór í dýragarðinn og fannst óviðjafnanlegt að gera verið svona lengi úti án þess að vera kafdúðuð og frostbitin í kinnum. Skokkararnir fóru hamförum, berleggjaðir í stuttbuxum og skokkbrjóstahöldurum eins og það væri komið sumar. Ég taldi mig þó vita af reynslunni af norðurhjara að slík umskipti séu varasöm og passaði mig að vera nógu vel klædd, í peysu og léttri úlpu. Það sýndi sig líka að þegar maður stóð um hríð í skugga var næstum andkalt. Það var mikið af fólki í dýragarðinum enda vinsæll til gönguferða almennt hjá fólki því ekkert kostar inn.
Þarna sá ég meðal annars lítil búr með marglyttum. Leiðsögukona sagði okkur að illa hefði gengið að halda marglyttum á lífi í búrum því þar hröktust þær úr í horn og voru fastar án þess að ná nokkru æti. Svo datt starfsmanni í hug að hanna þröng búr með botni sem er hálfhringur að lögun sem veldur því að hið stöðuga vatnsstreymi sem er inn í búrið verður að hringstraumi. Þannig svífa marglytturnar upp og niður, hring eftir hring og braggast hið besta.
Frá dýragarðinum rölti ég að annarri lestarstöð en ég kom á og fann þá marga litla veitingastaði, ítalska matvöruverslun og aðra með lífrænum matvörum. Ég á örugglega eftir að ráfa þangað aftur enda uppáhalds ísbúðin mín á sömu slóðum. Ég hafði bara aldrei komið á svæðið úr þessari átt og því ekki séð valkostina. Það er alveg stórskemmtilegt að þvælast svona um ný svæði þegar maður veit svona nokkurn veginn hvar maður er til að komast þaðan aftur.
Ég hef alltaf farið ein í þessa sunnudagstúra. Hér á skólanum eru flestir bundnir af kirkjusókn á sunnudögum, ýmist sem beinir starfsmenn eða vegna starfsþjálfunar svo það þýðir lítið að leita eftir ferðafélögum. Kóreska vinkona mín kemst ekki með mér vegna sinnar starfsþjálfunar á sunnudögum. Hjá henni fer allur dagurinn í það. Hún fer úr húsi klukkan eitt og kemur heim um kvöldmatarleytið. Við höfum ætlað okkur að skreppa stundum saman en þurfum þá sennilega að skipuleggja það út í æsar með einhverjum fyrirvara svo báðar eigi fyrir því að líta upp úr bókunum á sama tíma.
Já, það var aldeilis munur á klæðaburði mínum í dag og um síðustu helgi þegar ég fór dúðuð í "Museum of American History" og heilsaði upp á C3P0.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.