Á faraldsfæti

Nú er komið að fardögum hjá mér. Upp úr miðnætti aðfaranótt þriðjudags ætti ég að skríða inn á heimavistina vestra ef ferðaáætlunin gengur upp. Ég á stutta millilendingu í Boston og flýg þaðan áfram til DíSí. Þessa dagana eru allar viðvörunarlínur rauðglóandi vegna embættitöku nýs forseta svo það má búast við hægari gangi í verkferlum á flugvöllum auk þess sem almenningssamgöngur í borginni verða á yfirdrifi vegna aukins mannfjölda. Mín úthugsuðu ferðaplön geta því öll runnið út í sandinn án þess að ég geti rönd við reist.

Við áramótÍ bígerð er að fara niður í bæ á þriðjudagsmorgun með vinkonum mínum, Englunum, og drekka í okkur mannlífið og heimssöguna á einu bretti svo við höfum eitthvað að segja barnabörnunum. Það er ekkert vit í að láta þennan viðburð fram hjá sér fara og þó ég hefði látið mér nægja að horfa á brot af því besta í kvöldfréttum sjónvarps væri ég á Fróni þá er ekki annað inni í myndinni en mæta á staðinn, marka sín spor í söguna. Að minnsta kosti getum við stöllur tekið myndir hver af annarri líkt og pólfarar og fjallageitur enda ekki heiglum hent að ráða fram úr ferðaþrautum sem almenningur þarf að glíma við á leið sinni um borgina á þriðjudaginn.

Það hefur verið óviðjafnanlegt að vera heima í jólafríinu, knúsa mann og afkvæmi og skreppa í kaffi til minna nánustu. Námsmenn erlendis eru ekki ofaldir þó þeir komist heim einu sinni yfir veturinn. Það er svo mikilvægt fyrir sálina. Ég hef, eins og alþjóð veit, nurlað stíft til að geta veitt mér þetta og sé ekki eftir því. Nú skulu kannaðar nýjar sparnaðarlendur og útrásarvíkingum slegið við í hlutfallslegum ábata af viðskiptum þó ekki verði þau víðtækari en við næsta stórmarkað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Laufey B Waage

Já þú mætir mátulega í embættistökuna. Bið að heilsa Obama.

Laufey B Waage, 20.1.2009 kl. 13:35

2 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

ógjörningur að komast frá Virginíu.  Hraðbraut 66 var lokað í nótt, allar brýr lokaðar fyrir bílaumferð og Vienna metro lokaðist kl. 7 í morgun vegna þess að bílageymslan var þegar orðin full. Verður fínt fyrir þig að geta labbað í bæinn. Þetta er ekki svo langt. 

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 20.1.2009 kl. 16:17

3 identicon

Elsku frænka,gangi þér vel þarna úti.

Mikið eru þið sæt á myndinni:)

Kveðja frá Höfn.

Nína Einarsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband