8.1.2009 | 19:45
Heima er best
Það er svo gott að vera heima hjá sér að öll önnur tíðindi hverfa í skuggann. Ég fer seint að sofa og seint á fætur til að aðlögunin að tímamismuninum taki skemmri tíma þegar ég fer aftur út því hamagangurinn byrjar með það sama. Ég hef komið nokkrum vinaheimsóknum í framkvæmd en annars verið heima í rólegheitum. Það hringir ekki einu sinni síminn hérna. Gönguferðir og sund hefur verið mín líkamsrækt enda um að gera að nota tímann til þess á Fróni.
Ég er ekkert alltof spennt að fara aftur út. Bankakreppan er ekki afstaðin og ef ég á að segja eins og er þá er ég ekkert alltof viss um að kerfið lokist ekki aftur. Það er svo vont að vera í burtu frá öllum og öllu þegar ástandið er svona tætt og óstöðugt.
Námskeiðin fyrir vorið eru komin á hreint. Það verður eitt í kirkjusögu og annað í ritskýringu Gamla testamentisins. Þá er bókmenntakúrs og líka listasaga á áætluninni. Einnig er ég skráð í tvær vinnustofur með listafólki. Bækurnar er ég búin að útvega mér flestar notaðar og þurfti ekki að leggja út mikinn pening því ég skipti á flugpunktum og inneign hjá netbókabúð. Svona eru nú námsmenn í útlöndum útsjónarsamir. Ég næ aldrei að safna fyrir flugferð með punktum og ef flugfélögin fara á hausinn þá er inneignin líka farin. Sýnd veiði er ekki gefin.
Athugasemdir
Já það er ekki gaman að vera langt frá sínum þegar illa gengur. Maður vill vera nærri og geta hjálpað til og knúsað sína. En lífið heldur áfram og þótt Íslandi eigi eftir að ganga enn verr á nýja árinu, er ljóst að vonarglætan liggur í eðli Íslendingsins. Íslendingar eru DUGLEGT fólk, vinnuþjösnar og gefast ekki svo létt upp. VIð styrjum landið okkar útifrá Ólöf :)
Góða ferð til USA (FAC - Foederatae Americae Civitatis) :)
Baldur Gautur Baldursson, 9.1.2009 kl. 07:38
Kæra mágkona!
Takk fyrir síðast. Ég legg til að þú hafir eitt horn á síðunni þínu "Sparnaðarráð Ólafar". Þú ert alveg ótrúlega útsjónarsöm.
Kv. Guðrún
Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 12:59
Ég var einmitt að hugsa um hvað við segðum á íslensku í staðinn fyrir 'home sweet home'. Heima er best. Hjá mér á það við í báðar áttir. Ég fer heim til Íslands og heim til Kanada. Eins og mér þótti erfitt að kveðja á þriðjudaginn fannst mér líka ákaflega gott að koma heim í mína eigin íbúð innan um mitt eigið dót og ég hlakka til að hitta aftur vini mína hérna.
Vonandi að ástandið skáni hjá ykkur í USA eins og ég vona að það skáni á Íslandi. Við hér í Kanada erum þokkalega sett enda bankalög í landinu sem lokuðu fyrir alla útrás.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.1.2009 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.