20.12.2008 | 18:55
Loksins á Austurvelli
Loksins komst ég á Austurvöll, búin að vera föst í Vesturheimi síðan mótmælastöður hófust. Þó tilefnið sé allt annað en gleðilegt gat ég varla varist brosi vegna þess að ég var einfaldlega glöð að geta verið með. Það hefur reynt verulega á að sitja handan við hafið, lesa fréttir af netinu og horfa á fréttatíma. Maður finnur svo sterkt fyrir vanmætti sínum og áhrifaleysi. Það er eins og úthafið verði táknrænt fyrir þá gjá sem er á milli veruleika almennings og tilburða ráðamanna sem eru álíka yfirborðskenndir og allt öryggiseftirlitið á flugvöllunum fyrir vestra sem sennilega hefur þann tilgang helstan að láta farþega halda að það sé verið að passa þá. Þeim mun meira sem fer fyrir öryggiseftirlitinu, þeim mun flinkara lítur það út fyrir að vera.
Nú þegar ég er búin að horfa á kvöldfréttirnar heyri ég af þingfundi sem færir mér heim sanninn um sömu aðferðafræðina - valda nógu miklum glundroða svo fólk haldi að það sé eitthvað að gerast. Glundroði plús glundroði virkar ekki í öfugu veldi svo við komum út í plús eins og þegar tvær mínustölur eru lagðar saman. Glundroði plús glundroði verður bara að klessu.
Athugasemdir
Velkominn í ástandið, Ólöf. Velkomin í samfélag mótmælenda, sem er virk stjórnarandstaða. Þátttaka þín er ekki bara vottur um samstöðu þína með þeim sem mótmæla hvernig stjórnvöld hafa stjórnað. Þú sýnir líka og sannar að þú lætur ekki óværu yfir þig ganga mótspyrnulaust. Loks er greining þín á ástandinu rétt. Þátttaka þín er enn eitt lóð á vogarskálar þeirra sem segja núna fullum hálsi að keisarinn er nakinn.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 21:16
já það er gott fyrir sálina að taka þátt í mótmælunum.
SM, 21.12.2008 kl. 11:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.