Englakór

Það sem ég sit frammi á röngu tímabelti um miðja nótt er upplagt að ylja sér við góðar minningar. Ég hef eignast tvær góðar vinkonur í skólanum, Swapna og Heesung. Önnur er frá Indlandi og hin frá Suður-Kóreu. Þær hafa ekki bara veitt mér frábæran félagsskap heldur líka ómetanlega stuðning. Þær eru báðar nýnemar eins og ég. Swapna kom til Bandaríkjanna í ágúst og á ættingja í grenndinni. Á Indlandi á hún stóra fjölskyldu og ef ég man rétt þá eru þær fimm systurnar. Heesung á eiginmann heima í Suður Kóreu og saknar hún hans mikið enda aðeins verið gift í tvo mánuði þegar hún kom í ágúst. Við gætum ekki haft ólíkari menningarlegan bakgrunn en kannski er það einmitt þess vegna sem okkur kemur svona vel saman. Við gerum ráð fyrir mismun og erum forvitnar og fúsar að skilja. Við höfum líka meiri samúð með þolraunum hver annarrar í framandi landi.

Charlie's AngelsStaðsetning skólans var sameiginleg ástæða okkar fyrir námsvali og höfum við ýmist saman eða í sitthvoru lagi farið í leiðangra. Eiginlega höfum við lært meira af hver annarri um aðstæður en af heimamönnum. Raunar eru fremur fáir af innlendum nemendum skólans áhugasamir um útlendingana sem kemur spánskt fyrir sjónir vegna þess að skólinn gortar töluvert af þessari fjölbreytni og segir hana ákaflega mikilvæga fyrir nemendurna. Við útlendingarnir erum sum hver enn að velta fyrir okkur hvar og hvernig við höfum svona mikil áhrif því við þrjár erum sammála um að lítið sé sóst eftir innleggi úr sérstöðu okkar. Mig grunar að hinn almenni Ameríkani sé ekkert yfir sig spenntur fyrir innflytjendum.

Alla vega er ég að kynnast nýrri menningu í gegnum vinkonur mínar, Swapna og Heesung. Swapna á til dæmis í mestu vandræðum með að drekka úr glasi vegna þess að á Indlandi snertir maður ekki drykkjarílát með vörunum. Drykkjarrör leysir ekki vandann. Við erum búnar að prófa það. En ég dáist að því hvernig hún drekkur úr flösku án þess að snerta stútinn með vörunum eins og hún gerir heima hjá sér. Ég læt mig ekki einu sinni dreyma um að ráða við það. Í samanburði við þær hef ég minnst þurft að glíma við aðlögun í mataræði. Vestrænn matur er þeim framandi. Heesung líður fyrir hvað maturinn er saltur enda kóreskur matur lítið saltaður en þeim mun kryddaðri. Ég hughreysti þær þó með því að sumt sem við fáum í mötuneytinu sé bara einfaldlega vont og þær þurfi ekkert að leggja á sig að reyna að venjast því. Sjálf hef ég ákveðið að borða aldrei aftur niðursoðnar strengjabaunir. Það er saga að segja frá því sem í stuttu máli gengur út að að niðursoðnar strengjabaunir eru einfaldlega móðgun við þroskaðan matarsmekk.

Framundan hjá okkur stöllum er ekkert minna en að bjarga heiminum enda köllum við okkur "Charlie's Angels". Það hefur mjög víðtæka skírskotun, m.a. þá að Charles Wesley var sálmaskáld mikið og við allar í skólakórnum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband