12.12.2008 | 14:29
Teikn(un) á lofti
Yðar einlæg sorterar og pakkar af fullum þunga þessa stundina. Ísskápurinn er í affrystingu og í kjallaranum malla tvær þvottavélar. Þá er bara eftir að skúra svo allt verði hér tandurhreint yfir jólin. Þau held ég þó ekki hátíðleg meðal amerískra heldur flýg heim á morgun og fagna hátíðinni á Fróni í faðmi fjölskyldu og vina. Ég ætla ekki að reyna að segja hvað ég hlakka til að koma heim.
Það sem af er desember hefur enginn tími gefist til að skoða hina vesturheimsku frummynd verslunarjóla en til stendur að bæta úr því í dag. Það verður þó ekki nema til að kaupa kleinuhringi handa unglingnum, kannski peysu á sjálfa mig af því að það er sjokktilboð í dag og svo tvo engla ef ég finn einhverja sem mér líkar. Ég held að búðarrottum þykið lítið til minna umsvifa koma. Í fyrradag fór ég með Swapna, indverskri vinkonu minni og skólasystur á opið hús í tilefni jóla hjá Byltingardætrunum sem ég hef sagt hér frá áður, skoðuðum jólatréð við Hvíta húsið og fengum myndir af okkur með jólasveininum. Það gerist ekki amerískara.
Hér til hliðar er sjálfsmynd sem var síðasta verkefni teiknitímans. Það er svo merkilegt að teikna mynd af sjálfum sér. Þar glímir maður við innprentaða staðalímynd af sjálfum sér, jafnvel óskaímynd, og verður að sætta sig við að það sem fer á blaðið er aðeins það sem maður getur raunverulega séð fordómalaust í speglinum þá stundina. Það var svo gefandi að hlusta á umsagnir skólasystkina. Ein lærdómurinn er sá að tvær teikningar verða aldrei eins. Sjálfsmyndirnar okkar verða aldrei eins heldur breytast eftir skapi okkar og geðhrifum hverju sinni. Það er einhver lítill fugl að hvísla því að mér að þessi vitneskja hafi gríðarlega mikilvæga þýðingu fyrir sjálfsþekkingu og sjálfssætti. Þarna er vettvangur fyrir sálgæsluna. Teiknitíma í guðfræðideild HÍ, takk fyrir.
Athugasemdir
Góða ferð heim Ólöf mín. Það fer lítið fyrir því að fá þig í heimsókn. Hvenær kemur þú til baka. Við erum að fara á jóla tónleika með sinfóníuhljómsveit Manassas borgar á morgun og svo til Blacksburg á sunnudaginn til að sækja ungmeyjuna.
Gleðileg jól
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 12.12.2008 kl. 17:25
Frábær sjálfsmynd.
Og velkomin heim á klakann. Hér er frost og fallegur nýfallinn jólasnjór sem tekur á móti þér.
Laufey B Waage, 13.12.2008 kl. 10:47
Bon voyage en Islande! :) Vonandi færðu falleg og góð jól á Íslandi. Bestu kveðjur og gangi þér vel með affrystinguna :)
Kramar, Baldur
Baldur Gautur Baldursson, 13.12.2008 kl. 11:14
Minni varir og stærri tennur. Sléttara hörund - ég skil ekki hvað við erum að vilja láta taka af okkur ljósmyndir. Þegar þú kemur heim máttu gjarnan teikna mig!
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.