30.11.2008 | 01:06
Lokaspretturinn
Nú eru aðeins tvær vikur eftir af önninni og þá fer ég beint heim til Íslands í jólafrí. Það er mígrútur af verkefna- og ritgerðaskilum í síðustu vikunni auk þess sem ég tek eitt lokapróf og eitt heimapróf. Ég er búin að skrifa öll verkefni og ritgerðir nema eina 5 síðna og svo þarf ég að lesa fyrir prófið. Það verður mánudaginn 8. des og er í sálgæslu. Við erum ekki öll eins hrifin og kennarinn af því að hafa lokapróf sem er kunnur að því að hafa þau strembin. Daginn eftir á ég að skila einu ritgerðinni sem ég á eftir að skrifa. Ég ætla að reyna að klára hana á næstu tveimur dögum. Sú er í öðrum sálgæslukúrsi.
Ég skilaði lokaverkefninu fyrir skólakórinn fyrir mánuði þó þess þyrfti ekki fyrr en í lokin svo síðan hef ég bara sungið af hjartans lyst.
Á mánudaginn skila ég "Annarloka sjálfsmati" í sálgæslunni ásamt bókarýni og leiði umræðu í þeirri kennslustund. Þau skjöl eru bæði tilbúin. Þá er bara prófið eftir.
Lokaritgerð og lokaverkefni fyrir leiklistina á að skila inn 11. desember. Þau er ég bæði búin með og ætla að skila þeim viku fyrr því sennilega þarf ég að fá frí í síðasta tímanum til vinna á verkstæði eins prófessorsins míns að innsetningunni okkar á listaverki hennar í janúar. Lokaverkefnið mitt gengur út á samþættingu sálgæslu og leiklistar í praksís þar sem lögð eru drög að eiginlegri framkvæmd.
Þá er það teikninámskeiðið. Ég er búin með verkefnið fyrir næstu viku og er hæstánægð með það. Þá er bara eitt eftir. Það tekur mig einn dag að gera það svo ég ætti að gert það daginn fyrir síðasta tímann þann 10. desember. Þó er betra að byrja á því fyrr svo það sé hægt að hvíla sig. Þetta verður sjálfsmynd sem ég á að teikna. Við eigum bara að skila öllum teikningunum okkar og ákveða einkunnina í samráði við prófessorinn. Það ferli verður áhugavert.
Heimaprófið er fyrir okkur útlendingana. Ég fékk það í vikunni sem leið og á að skila því 12. desember. Prófið er afspyrnu asnalegt, s.s. "Útskýrðu hugmyndina um menningu sem borgarísjaka og nefndu dæmi". Ég er í námi á meistarastigi, takk fyrir og afsakið kaldhæðnina.
Loks er það hitt sálgæslunámskeiðið. Þar er ég að vinna textíllistaverk sem er mín guðfræði sköpunargáfunnar og ritgerðin á svo að útlista verkið nánar og rökstyðja staðhæfinguna. Saumavélin sem ég fékk lánað hefur valdið mér táknrænum höfuðverk og einlægu svekkelsi. Hún vinnur vattstungu mjög illa svo ég er hálf bjargarlaus að ljúka því fyrir annarlok. Ég veit um bakdyraleið en hef aldrei gert það þannig svo nú reynir á sköpunargáfu mína bókstaflega.
Myndirnar eru af tækifæriskortum sem ég hef unnið upp úr endurvinnslutunnum hér í skólanum.
Athugasemdir
Goo luck! Já gangi þér vel við prófalestur og við frágang verkefnavinnunnar. ´Þetta verður örugglega svakalega fínt hjá þér.
Rosalega eru þetta fín kort! :)
Baldur Gautur Baldursson, 30.11.2008 kl. 10:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.