28.11.2008 | 21:22
Svört jól
Fataverslanir hafa áhyggjur af því að fólk verði klæðlítið um jólin vegna þess að ekki hefur fengist gjaldeyrisheimild til að flytja inn fatnað samkvæmt frétt af vefsíðu RÚV í dag. Mig grunar að fyrr muni grísir fljúga en að það vanti spariföt á Íslendinga. Fataverslanir hafa árum saman verið fullar af sama "concepti" og fataskáparnir heima hjá okkur, þ.e. fullir skápar ef engu til að fara í. Hvað þarf ein manneskja að eiga margar svartar buxur, hversu marga svarta boli þarf að eiga til skiptana svo ekki sé nú talað um svört stígvél og svarta, stutta kjóla. Ég veit ekki betur en flestar konur eigi svarta stuttjakka sem ganga við allt og varla hafa þeir allir náð að slitna á olnbogunum. Það hlýtur að vera eitthvað til í skápunum.
Við hin sem höfum ekki haldið uppi hugmyndasnauðum tískujöfrum Íslands í góðærinu förum í sama kjólinn fyrir jólin og við höfum gert undanfarin fimm ár þrátt fyrir góðærið. Það setur ekki að okkur ugg og ótta, mikla angist og ekkasog. Nú er lag fyrir þotuliðið að opna nytjamarkað fyrir merkjafatnaðinn sinn. Þið hin, passið ykkur bara að troðast ekki undir í búðarslagnum um síðustu svörtu brókina hjá NoSmartCo.
Frétt RÚV er hér neðar
Innskot 30. nóvember: Máli mínu til frekari stuðning er hér auglýsing Debenhams fyrir þessi jól:
"Hætt er við því að fátæklegt úrval verði af sparifötum fyrir jólin því fyrirtæki í fatainnflutningi komu að lokuðum dyrum í dag - þegar leitað var eftir bankaábyrgð - til að geta flutt inn vörur. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir málið alvarlegt. Afar lítið virðist vera til af gjaldeyri í landinu. Fyrirtæki í fatainnflutningi komu að lokuðum dyrum þegar þau reyndu í dag að fá bankaábyrgð til að geta flutt inn vörur. Málið sé alvarlegt því margar verslanir eigi afkomu sína undir því að selja föt. Seðlabankinn setti fyrir hálfum öðrum mánuði reglur um gjaldeyrishöft. Matur, lyf og olía skyldu ganga fyrir þegar bankarnir afgreiddu gjaldeyri. Nýju lögin leysa þessar reglur af hólmi. Ekki liggi ljóst fyrir hvort þetta gildi fyrir alla bankana en ef svo sé þá hafi innflutningur á fatnaði verið stöðvaður."
Fyrst birt: 28.11.2008 19:20
Síðast uppfært: 28.11.2008 20:30
Athugasemdir
Þetta er nú kannski pínu kvikindislegt hjá þér þar sem fatakaupmenn og -konur þurfa líka að hafa í sig og á ... hætt er við að ef þetta lagast ekki fyrir árshátíðarhrinuna, þá verði þau að opna tuskubúðir og skraddarastofur vilji þau velli halda.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 20:38
Ég vorkenni þeim ekki baun. Það er kominn tími á íslensku innrásina. Fatakaupmenn og -konur geta selt íslenskan fatnað íslenskra fatahönnuða sem saumaður er á Íslandi.
Ég vann í einni síðustu fataverksmiðjunni sem lokað var á landinu en þau störf voru flutt úr landi eins og mörg fleiri síðar. Það er vel hægt að framleiða fatnað á Íslandi. Ef slakað væri á arðsemiskröfum ætti að vera hægt að sjá Íslendingum fyrir sparifötum einu sinni á ári.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 29.11.2008 kl. 21:51
ég verð í sömu jólafötunum c.5 árið í röð...enda bara notuð á jólum
SM, 30.11.2008 kl. 09:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.