28.11.2008 | 02:29
Þakkargjörðarhátíð
Þakkargjörðardeginum varði ég með fjölskyldu Mollie, skólasystur minnar, á heimili systur hennar í Purcellville í norðurhluta Virginia fylkis. Hinn ómissandi kalkúnn var á borðum með öllu tilheyrandi og margar tegundir af pæjur í eftirmat. Þar á milli fór ég í gönguferð um bæinn með systurinni og föður þeirra.
Það eru mörg falleg hús í bænum, hús í viktoríönskum stíl, hús í stíl þriðja áratugarins og svo enn eldri hús. Eitt þeirra frá 1870 var til sölu á litla 750 þúsund dollara. Ég fann hús sem mig langar í, blátt hús með turni og er mynd af því hér til hliðar. Við gengum eftir Aðalstræti sem á annatíma hefur bíl við bíl en var nú autt og hljótt enda tækifærið notað til að flytja landbúnaðarvélar. Þarna eru enn smáfyrirtæki í einstaklingseigu, s.s. úrsmiður (sem getur tekið sér 6 mánuði til að gera við úrið þitt), járnvörubúð með upprunalegum innréttingum frá seinni hluta 19. aldar þar sem öllu ægir saman upp undir rjáfur, hlöðu í miðbænum sem breytt hefur verið í vinsælan veitingastað með öllum burðarvirkinu ófegruðu og síðast en ekki síst byssubúð.
Það var ómetanlegt fyrir mig að vera með fjölskyldunni þennan dag og fá hefðina beint í æð. Við matborðið var börnunum hlýtt yfir pílagrímasöguna eftir að ég hafði sungið "Þurfamaður ert þú mín sál" við einlæga eftirtekt viðstaddra enda stórfjölskyldan öll kennaramenntuð og hefur fóstrað 21 skiptinema í gegnum árin. Til að ljúka deginum með tilhlýðilegum hætti var ég send til baka með matarafganga sem ættu að duga mér fram eftir helgi.
Athugasemdir
Mikið hefur það verið gaman að fá að upplifa hátíðina á þennan hátt.
Snorri Halldórsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 08:12
Ameríka, það er ekki laust við að maður sé pínu farinn að sakna sums þar...3 mánuðum seinna...
SM, 30.11.2008 kl. 09:38
Sæl kæra mágkona!
Mikið hefur þetta verið ómetanlegt ævintýri að fá að upplifa þakkargjörðarhátíð með heimamönnum, I envy you.
Kærar kveðjur,
Guðrún
Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 15:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.