25.11.2008 | 03:24
Í góðu yfirlæti
Síðan á laugardag hef ég dvalið hjá skólasystur minni á heimili hennar í Severn í Maryland, rétt við Baltimore. Það er vikufrí í skólanum vegna Þakkargjörðarhátíðarinnar og margir á heimavistinni fjarverandi af því tilefni. Þetta hefur verið yndislegt frí. Inn á milli námsbókalesturs og ritgerðarskrifa höfum við skroppið í leiðangra. Í dag fórum við í gönguferð um stóran almenningsgarð rétt við heimili þeirra hjóna, Wendy og Frank, til að hvíla okkur á yfirsetunni og hlúa að heilsunni. Siðdegis kenndi Wendy mér að búa til skartgripi svo nú liggur á bakka hálsfesti í uppsiglingu og eyrnalokkar með. Á morgun ráðgerum við að fara í sædýrasafnið í Baltimore og skila mér síðan til baka á miðvikudag. Ég á svo heimboð hjá öðrum nemanda í Þakkargjörðarveislu á fimmtudag. Mér var lofað Þakkargjörð eins og hún leggur sig. Ég lofa að taka myndir og tíunda viðburðinn í smáatriðum hér á blogginu.
Ljósmyndin er af Wendy og mér í námsferð í september.
Athugasemdir
Sædýrasafnið í Baltimore er frábært og sennilega eitt af þeim flottustu. Ég get ekki ýmindað annað en að en þetta verði skemmtilegur dagur hjá þér. Fyrir utan glæsilega fisktanka, er boðið upp á höfrungasýningu og fræðslu um höfrunga. Allt til fyrirmyndar. Sniðugt að fara á sædýrasafnið inn í miðri viku þvi um helgar er oft mikil örtröð og oft erfitt að komast að tönkunum til að geta notið þeirra.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 25.11.2008 kl. 03:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.