27.10.2008 | 00:37
Hrekkjalómur
Við heimavistargemlingar héldum alþjóðapartý á föstudagskvöldið. Eftirvæntingin var mikil og margir spurðu með öndina í hálsinum hvort mitt herbergi yrði ekki Ísland. Ég hélt nú ekki. Í anda hreinræktaðra íslenskra hrekkjalóma brá ég fyrir mig húmornum og breytti herberginu mínu í háðsádeilu. Yfirskriftina sjáið þið á myndinni: "Iceland AKA Little Britain Commonwealth". Til að ganga inn þurfti fyrst að berjast í gegnum hríðarbyl enda var gefin út snjóflóðaaðvörun um kvöldið.
Innandyra rúllaði heimildamyndaflokkurinn "Little Britain" á tölvunni minni og undir yfirbreiðslunni lúrði saumavélin mín merkt kyrfilega "Weapon of Icelandic terrorist" með ljósbláu blikkljósi fyrir framan. Hinir huguðustu hikuðu við að gægjast undir handklæðið.
Til að hafa þjóðlegar hefðir í hávegum undir erlendri áþján bauð ég upp á örsmáar rúgbrauðssamlokur með íslensku smjöri og íslenskum osti, Stóra-Dímon. Sjálfur Síríus sá svo um eftirréttinn, suðusúkkulaðið eina og sanna. Veitingarnar hittu beint í mark og skopið sömuleiðis.
Athugasemdir
Hæhæ!
Gott að heyra að húmorinn hafi virkað.
Ætli húmor sé ekki bara hættulegasta vopn terrorista?
Gangi þér allt í haginn. Kær kveðja frá GH+meðlimum
Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.