19.10.2008 | 13:47
Silkibrók og lopasokkar
Það er farið að kólna verulega frá því sem var og ég er farin að finna fyrir kulinu hér innanhúss. Fyrir vikið er svefninn góður og samfelldur en það er ekki notalegt að fara á fætur. Það er ekki búið að kveikja á kyndingunni. Herbergið mitt er norðanmegin og því hlýnar ekki inni hjá mér með morgunsólinni. Ég sit því hér í íslenskri lopapeysu, ullarsokkum og komin í silkibrókina undir síðbuxurnar - innanhúss. Þó lofthitinn úti sé skráður sem á íslenskum meðalsumardegi væri þá er komið svolítið kul í loftið sem maður finnur berlega í skugga. Hér eru veðurlýsing og -horfur í Washington DC.
Silkibrókin er fyrirbæri sem ég vissi ekki af. Það er allt til í Ameríku. Heima á Íslandi tróð ég mér í síða ullarbrók þegar ég þurfti að fara út þegar kólnaði og fann fyrir þykktinni þegar ég var fullklædd. Hér fara konur í síðar silkigammósíur og langerma, þunna silkiboli. Lagskipting er lykilorðið. Klæða sig í lögum. Ég fékk mér ekki það fínasta fína en splæsti í bónusútgáfu af fyrirbærinu á fimmtán dollara. Það þýðir lítið að umreikna það í krónur þessa dagana.
Ég er að ganga frá miðannarsjálfsmati fyrir sálgæslunámskeið. Það telst góður texti á ameríska vísu að skrifa allt þrisvar. Fyrst skrifarðu hvað þú ætlar að segja. Svo skrifarðu það sem þú segir um málið. Síðan skrifarðu hvað þú varst að segja. Á íslensku heitir þetta stagl.
Svo á ég að skila ritgerð fyrir annan kúrs um menningarsjokkið sem ég hef orðið fyrir. Ég er nú bara krumpuð í framan við tilhugsunina um að gera það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.