Námsmenn á flæðiskeri

Það hafa allir nóg með sig um þessar mundir. Ég hef áhyggjur af stráknum mínum  og  tengdadóttur sem eru í námi erlendis. Ég hef áhyggjur af því að þau geta ekki millifært peninga til að borga húsaleigu og mat og því verði sjálfhætt í náminu. Mér finnst lika sárt sem mömmu hans að geta ekki sent þeim gjaldeyri til að tryggja afkomu þeirra. Það skiptir svo miklu máli að þau geti haldið áfram að læra. Þau eru svo dugleg og ég er hreykin af þeim.

Í ofanálag hefur hann legið á sjúkrahúsi í útlandinu alla þessa viku, hundveikur. Mamma getur ekki heimsótt hann og af einhverri einfeldni held ég að honum liði miklu betur ef ég væri hjá honum. Þó sjúkrahúsið í sé tæknilega vel statt er aðbúnaður sjúklinga bágborinn. Hann verður sjálfur að skaffa borðbúnað, meira að segja glas til að drekka úr. Hann getur beðið um að fá að borða en ég veit ekki hvort hann þarf að borga fyrir það sérstaklega. Hann getur ekki talað við starfsfólkið nema læknana sem skilja hann varla nema hann skrifi á ensku því þeir hafa litla þjálfun í ensku talmáli og geta því illa tjáð sig sjálfir við hann.

islandtv-1Sjálf bjargaðist ég fyrir horn. Skólagjöld annarinnar voru að fullu greidd, húsnæðið á heimavistinni fram að áramótum líka og skylduáskriftin í mötuneytinum fyrir hrunið mikla. En ég þarf samt að eiga fyrir mat því mötuneytið afgreiðir bara hádegis- og kvöldmat fjóra daga vikunnar og það má ekki taka mat með sér þaðan út. Peningarnir mínir eru á Íslandi og ég var ekki með skotsilfur hér sem dugar fram að jólum. Ég átti farmiðann heim í síðustu viku og var svo fegin að vera heima þegar ósköpin dundu yfir í stað þess að skjálfa hér á beinunum við mbl.is. Tveimur dögum áður en ég flaug aftur vestur hringdi í mig kær vinkona og bauð mér smá gjaldeyri sem hún átti. Mér þótti svo vænt um að hún skyldi muna eftir mér. Þetta breytti öllu því þarna var ég komin með samanlagt það sem ég þarf til að geta klárað önnina. En ég er samt á tauginni því ég veit ekki hvort ég á að geyma peningana mína undir koddanum eða inni á bankareikningnum mínum hér úti í Ameríku. Hvað ef sá banki fellur?

Ég er búin að lifa svo spart að hið hálfa væri nóg. Ég get ekki sparað meira. Ég baka brauðið mitt, nískast til að kaupa ekki annað álegg en ost og skinku. Ég hef notað tepokana tvisvar og þegar kirkjur hafa komið hingað með kvöldmat handa okkur á laugardegi hef ég tekið með mér mat fyrir sunnudaginn. Þegar ég hef þurft að fara einhverra erinda eyði ég ekki í neitt, fer ekki einu sinni á kaffihús og fæ mér tebolla. Ég sé eftir peningunum sem fara í fargjöldin. Til að njóta þeirrar menningarauðlegðar sem borgin býr yfir verð ég að eyða í fargjöld. Ef ég sit bara á vistinni til að spara peninga fer ég á mis við þá menningu sem gefur námi mínu einhverja burði. Sem betur fer var ég búin að borga leikhúsmiða sem er skylduverkefni vegna námsins og fer ég á sýninguna á sunnudaginn með skólasystur minni. Það verður mikil tilbreyting. Verst er að við vorum búnar að ákveða að fá okkur bita eftir það. Nú hefði ég frekar viljað taka með mér nesti!

Annað og öllu verra er að ég þarf að fara að taka ákvörðum um vormisserið. Skráning hefst eftir viku og í framhaldi af því þarf að huga að greiðslu skólagjalda. Ég get ómögulega tekið ákvörðun um áframhaldandi nám á meðan efnahagsmálin eru svona óljós og þung í vöfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband