9.10.2008 | 20:47
Ekki orð um það meir
Svona til þess að blogga ekki um þið-vitið-hvað því það er á allra vörum og erlendir blaðamenn á landinu af þeim sökum ætla ég að bæta fyrir gamla vanrækslusynd. Það er nokkuð síðan ég var á mynd á forsíðu skólablaðsins, 1. tölublaði frá 25. ágúst, þar sem sagt var frá upphafi haustmisseris. Svo skrifaði ég greinarstúf sem er á forsíðu 6. tölublaðs frá 29. september en það er ekki enn komið inn á vefinn. Fyrir þá sem vilja fylgjast með skólastarfinu er hér slóðin á skólablaðið, Wesley Journal.
Greininni fylgdi ljósmynd sem ég tók við það tilefni sem greinin fjallaði um. Á daginn kom að samþykki allra sem voru á myndinni þurfti til að hægt væri að birta hana samkvæmt einhverjum lagabálki og þar sem það lá ekki enn fyrir við prentun blaðsins stóð til að afmá andlitin af myndinni. Það bjargaðist þó á síðustu stundu með ætluðu samþykki þeirra þar sem þau höfðu frétt af greininni og þá tjáð tilhlökkun sína yfir að mynd af þeim birtist á prenti. Það var víst ákveðið að láta það duga. Hér eftir geng ég með skrifblokk og penna að öllum þeim sem lenda inni á myndum sem ég tek þar sem fólk afsalar sér með öllu tilkalli til fjár og frama í kjölfar myndbirtingarinnar þó síðar yrði og heimilar mér og þeim sem ég kann að framselja heimildina til að breyta myndinni að vild, svo sem að móða skorur, afmá vörtur og gera hverjar þær breytingar sem ég tel nauðsynlegar til að gera myndirnar frambærilegri.
Kærir einhver sig um að sitja fyrir hjá mér?
Athugasemdir
Mikið er gott að fá að heyra um einkvað annað en "þú veist" og til hamingju með forsíðumyndina. Jæja það var aldeilis að þú fórst heim og aumingja þú hefur ekki heyrt talað um neitt annað. Arfurinn minn eftir foreldra mína er svo til allur horfinn eftir þessi ósköp.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 10.10.2008 kl. 00:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.