5.10.2008 | 21:47
Heima er best
Nú sit ég í náttfötunum í stofunni heima, búin að fara í heitt bað og bíð þess að nógu framorðið verði til að skríða í bólið. Það var yndislegt að ganga út úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar og finna skarpa, ferska loftið þrengja sér ofan í lungun. Það gerðist reyndar ekki alveg strax því fyrst fylltust öll vit af díselútblæstri rútu í lausagangi. Svo ég hélt snögglega niðri í mér andanum (og náði um leið öllu kolmónoxiðinu inn í kerfið hjá mér) þangað til ég kom fram fyrir rútuna og þá dró ég djúpt að mér andann.
Ég var verri en nokkur sveitalúði (dreifbýlisfólk, fyrirgefið samlíkinguna) þegar ég lenti suður frá og hef aldrei verið svona utan við mig á ferðalagi. Ég var orðin framlág eftir langt ferðalag og hafði ekki komið blundur á brá alla leiðina. Það var sama hvað ég reyndi, ég gat ómögulega látið fara þokkalega um mig í Flugleiðasætinu. Ég byrjaði á því að skilja veskið mitt eftir í flugvélinni og þurfti að sækja það með aðstoð tollvarða sem ómögulega vildu hleypa mér til baka inn landganginn og gengu sjálfir í verkið og sóttu veskið fyrir mig. Verandi orðin vel sjóuð í öryggisleit á bandarískri grundu setti ég á sjálfsstýringuna við öryggishliðið. Ég reif fartölvuna upp úr fartölvutöskunni og setti í sér bakka ásamt skónum mínum. Síðan setti ég allt annað lauslegt í annan bakka og skellti loks litlu ferðatöskunni upp á röntgenlínuna. Tollvörðurinn við bandið þreif tölvuna upp í bakkanum og ýtti henni inn í gegnumlýsingartækið. Ég æpti næstum upp yfir mig: "Já, takk fyrir, bara þeyta henni alla leið út á gólf, takk fyrir" en ákvað að vera ekki með uppsteyt. Alla lausamunina mína reif hann líka upp úr bakkanum og sendi allt í lausu inn í maskínuna. Ég spurði hvort það væri ekki óhentugt að hafa allt svona í lausu og skóna í sitt hvoru lagi. Hann sagði að það þyrfti ekki af fara úr svona skóm. Svo ég sagði þurrlega að ég væri að koma frá Bandaríkjunum og þar væri maður næstum rifinn úr öllu. Augnabliki seinna heyrði ég hann segja við vinnufélaga sinn að þessi Bandaríkjamenn kunni ekki að framkvæma öryggisleitina. Eiginlega jók það ekki öryggiskennd mína gagnvart flugferðalögum í Bandaríkjunum.
Jæja, ég í gegnum hliðið og arka sem leið liggur inn að flugstöð í fótspor næstu manneskju á undan. Þó ég hafi nokkuð oft farið þessa leið allra síðustu árin hefur ekki haft neitt upp á sig að leggja leiðina á minnið því hún hefur aldrei verið hin sama vegna innanhússbreytinga. Og fyrr en varir er ég komin inn í brottfararsalinn og sé engan útgang. Konan á undan mér stóð jafn sauðsleg og ég og skimaði í kringum sig. Ég vona að hún hafi getað afsakað sig með því að hún væri útlendingur. Ég sá engin skilti og gekk heilan hring um brottfarasalinn, þrælviss um að ég væri ekki á réttum stað. Að endingu bar ég mig upp við tollvörð og baðst afsökunar á því að spyrja svona: "Ég var að lenda og get ómögulega fundið útganginn. Hvar kemst ég út?" Sá glotti gleitt. Hann hefur öruggleg skemmt vinnufélögunum konunglega í næstu kaffipásu. Hann sagði mér að fara aftur inn í ganginn. Þar væru fullt af skiltum sem vísuðu mér leiðina. Ég inn ganginn, sný við og sé þá lítið auglýsingaskilti á gólfinu til annarrar hliðar, "Arrivals", og við hliðina á því annað lítið sem náði mér í mitti og á því stóð, hvað haldið þið? Arrivals! Afsakið, en ég er Íslendingu að koma inn í íslenska flugstöð og ég leita ekki að neinu "Arrivals". Þá sé ég glerrennuna sem komufarþegar ganga inn í og beint ofan við hana upp undir rjáfri út við vegg ,"Komur", með hálf væskilslegum fonti. Ég reyndi að hressa upp á sjálfstraustið með því að telja sjálfir mér trú um að engin þessara skilta væri í eðlilegri sjónlínu og því viðbúið að fólk arki framhjá. Ég hugga mig við það að tollvörðurinn var örugglega ekki spurður að þessu í fyrsta skipti.
Fyrst ég bar búin að tefjast svona þvert ofan í þá fyrirætlun mína að vera snögg í gegn og þess vegna aðeins með handfarangur ákvað ég í skyndi að bæta gráu ofan á svart og kaupa súkkulaði í fríhöfninni. Þar varð ég fyrir því áfalli að sjá hvern verðmiðann á fætur öðrum sem benda til þess að danska einokunarverslunin sé búin að taka yfir reksturinn. Eftir að hafa svo borgað fyrir nammið dreif ég mig að tollskoðuninni en skildi vörurnar eftir við kassann. Ég sneri svo við á síðustu stundu (ekkert grunsamlegt) og sótti vörurnar, alveg búin á því.
Gamla, góða ríkissjónvarpið tekur vel á móti mér með Stellu hinni síkviku á vettvangi stjórnmálanna. Það væri kannski heillaráð á þessum þrengingatímum að setja Stellu í stjórnina.
Athugasemdir
vá, heimkoman hefur verið algert ævintýri. Heppin að þú gleymdir ekki sjálfri þér einhverastaðar Þú er mjög heppin að tollverðirnir sóttu töskuna þína út í vél. Maðurinn minn var einu sinni að koma frá þýskalandi með Lufthansa. Þegar hann var komin í gegnum tollinn mundi hann eftir að hann hafði gleymt bók í sætinu sem hann hafði keypti handa syni okkar. Hann fór og tilkynti þetta en fékk ekki að fara aftur í gegnum tollinn. Reyndi ´því næst að fá starfsfólk að sækja bókina en það var ekki hægt vegna öryggislaga. Við sáum bókina ekki meir.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 6.10.2008 kl. 18:45
Velkomin heim! Vonandi hefur þú fulla vasa af dollurum.
Baldur Gautur Baldursson, 6.10.2008 kl. 19:23
Erna: Tollarinn hafði ekkert val, í veskinu var vegabréfið mitt svo án hans hjálpar hefði ég ekki komist í gegn. Það sem skelfilegra var er að í því var líka SEVIS vottorðið sem er þyngdar sinnar virði í gulli. Án þess er vegabréfsáritunin mín gagnlaus.
Baldur: Nei, vasar mínir eru ekki fullir af dollurum. Ég hef ekki týmt að kaupa mér dollara heldur hef lifað spart á því litla sem ég tók með mér. Ég lét mig hafa það fyrir viku að flytja örlítið á milli. Þá hafði gengið styrkst um tvær krónur og dollarinn lækkað niður í 93 krónur. Það stóð nú stutt og ég beit mig í handarbökin að hafa ekki millifært á meðan hann datt í 88 krónur um stund fjórum dögum áður. Ég hefði betur verið stórtækari.
Eftir skelfingarfréttir dagsins í dag hugsa ég ekki meira um dollara í bili. Ég er þó svo lánssöm að vera ekki á framfæri bankanna og verð að halda í það loforð Geirs að sparifé mitt sé tryggt. Það er þá helsta spurningin hvort það verði yfirhöfuð hægt að skipta yfir í dollara.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 6.10.2008 kl. 20:00
Kæra mágkona!
Ef skiltið náði þér í mitti er borin von að risar eins og ég og bróðir þinn myndum sjá það
Velkomið heim annars.
Kærar kveðjur úr Hveró
Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.