27.9.2008 | 03:21
Róðarkappar í kappræðu
Nú rétt áðan lauk fyrstu kappræðu forsetaframbjóðenda hinna sameinuðu fylkja. Nemendur komu saman niðri í setustofu og fylgdust spenntir með sínum manni. Mér fannst nú nokkuð ljóst hvor fengi meiri hluta atkvæða ef setustofan væri kjördæmi út af fyrir sig. Ég var ákaflega hreykin af sjálfri mér sem erlendum nemanda að láta sjá mig við þetta tækifæri og þess þá heldur að horfa á frá upphafi til enda. En svo segi ég ekki meira um það nema það að ég ætla mér að slá um mig í næstu kennslustund okkar útlendinganna enda eigum við að skrifa um fréttaflutning á sjálfan kosningadaginn. Sem betur fer verður kosningavaka í setustofunni svo ég fæ þetta allt beint í æð ásamt skýringum.
Ef persónuhögum mínum er það helst að frétta að ég get farið að varpa öndinni léttar vegna skordýraplágunnar sem flýr inn um gluggann iog nn í herbergið mitt skógarmegin við húsið. Það er svo sem enginn skógur við skólann. Trén eru of fá til þess að sú skilgreining eigi við. En þau eru svo há og mikil um sig að ég verð bara pínulítil í brekkunni og það kalla ég nú bara skóg. Einhverjar hlussubjöllur hafa staðið í þeirri meiningu að hér inni væri ættarmót. Þær eru svo stórar að þega þær fljúga framhjá loftljósinu bregður skugga fyrir birtuna. Svo setjast þær með smelli sem á skordýraskala hlýtur að hljóma sem BÚMM!
En það gæti líka verið erfidrykkja því aragrúi af skordýrahræjum liggur í gluggafalsinu. Hér er engin ryksuga til að ná þessu upp. Það er ekki heiglum hent að standa við gluggann og horfa út. Ég réðst á glufu meðfram endilöngu glugganetinu í fyrradag og lokaði fyrir hana með málningarlímbandi. Það virðist duga í bili því bjöllunum hefur ekki fjölgað og ég hef náð þessum þremur sem reyndust vera hér inni þegar ég lagði límbandið. Við aumingja bjöllunum blasir bara annað af tvennu, tortíming eða dauði. Samkvæmt minni rökfræði er niðurstaðan sú sama.
Nánari lýsingar á skordýraskaðræðinu gef ég aðeins mínum traustustu vinum þegar við komumst á trúnó stigið.
Athugasemdir
jú ég mætti í sófann og horfði á fyrri hluta kappræðunnar en síðan datt ég útaf og stein sofnaði.
Mér sýnist að paddan á myndinni sé Stink Bug sem er hin mesti óþverri og gefa af sér mikla fílu.
http://en.wikipedia.org/wiki/Shield_bug
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 27.9.2008 kl. 16:46
Ef þetta er Stink Bug þá líkist hún mest þessari hér eða þessari hér sem er líklegra því sú fyrri er á Evró-Asíu flekanum en sú síðari er talin flækingur frá Asíu hér í Norður Ameríku.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 27.9.2008 kl. 17:21
Já þetta er bölvaður óþverri. Ekki meint til að ergja þig, en kakkalakkar fylgja oft heimavista og þeir gætu farið að láta bera á sér þegar fer að kólna í veðri.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 27.9.2008 kl. 19:36
Þetta er nú eins og blaut tuska í andlitið. Erna, hvað geri ég þá?
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 27.9.2008 kl. 20:55
Sorry, 'eg er ekki að segja að það séu endilega kakkalakkar þarna, en samt ekkert óeðlilegt. Fólk flytur inn frá mismunandi stöðum og getur alveg eins borið þennan óboðna gest með sér. Ég var einu sinni í heimsókn í Flórída og þegar ég kom heim tæmdi ég töskurnar mínar og henti fötunum í óðreinatausdallinn. Þegar mamma kom fram morguninn eftir mætti hún ekki einum heldur tveim kakkalökkum á baðherbergis gólfinu. Þú getur rétt ímyndað þér fögnuðinn eða hitt þá heldu. Oft er ekki um annað að ræða enn að úða eitri meðfram veggjum kringum glugga og við dyrnar til að halda þeim í skefjum.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 28.9.2008 kl. 13:12
Telst ég traustur vinur
?
Guðrún Mágkona (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.