20.9.2008 | 21:14
Námsskráin I
Það er löngu orðið tímabært að kynna námskeiðin sem ég sæki þetta misserið. Í dag hef ég verið að lesa fyrir annað sálgæslunámskeiðið af tveimur sem ég er á. Þetta er framhaldsnámskeið og heitir "Creative play in pastoral leadership". Prófessorinn er Michael Koppel. Viðfangsefnið er að þroska guðfræðilega ígrundun á eðli og uppsprettu skapandi leiks og framlagi hans til úrlausnar viðfangsefna safnaðarleiðtoga í umönnun, sálgæslu og uppfræðslu. Hugmyndir um sköpunarkraft og leik eru skoðaðar frá sjónarhóli ýmissa fræða.
Aðalbækurnar okkar eru þessar:
"Open-Hearted Ministry: Play as Key to Pastoral Leadership". Hún eftir Koppel prófessor og er nýkomin út.
"Creativity: Flow and the Psychology of Discovery and Invention" eftir Mihaly Csikszentmihalyi.
"Mighty stories, dangerous rituals" eftir Herbert Anderson og Edward Foley.
"The unshuttered heart: Opening aliveness/deadness in the Self" eftir Ann Belford-Ulanov.
Þessar kennslustundir eru mjög ánægjulegar. Áhugaverðar og vekjandi umræður og svo þrungnar en þægilegar þagnir inn á milli þess sem við hlustum á hvert annað, segjum sjálf frá og hlæjum saman, einkenna tímana. Manni getur ekki annað en liðið vel þegar maður leggur sitt í púkkið því það er alltaf eins og allir hafi dottið niður á Stóra Sannleik með vangaveltum sínum. Reyndar er Ameríka að vissu leiti svona á yfirborðinu, eins konar staðalform samskipta. En í þessum kennslustundum finnst mér ekki vera neina yfirborðsmennska og nánast eins og kennarinn sé að uppgötva eitthvað nýtt í sinni eigin bók á hverjum degi. Þagnirnar finnst mér óviðjafnanlegar. Maður á þeim ekki að venjast í fyrirlestrum. Þetta eru ekki svona þagnir sem koma þegar verið er að fletta einhverju upp eða leita að orðum yfir það sem á að segja næst heldur bara þögn til að hugsa og horfa út um gluggann.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.