Öskubuska og umbreytingin

Nú er komið að hinni síðari opinberun Sölunefndarinnar, þ.e. annar þáttur um hamskipti á heimavist. Fyrsti hluti, Öskubuska, var á dagskrá DC rásarinnar í ágúst síðast liðnum og löngu orðð tímabært að leyfa tryggum áhorfendum/lesendum að sjá hvernig nú er í pottinn búið hjá Fljóðinu við fljótið.

Hér eru "fyrir"-myndir. Skiljið þið mig núna þegar ég kalla herbergið Sölunefndina? Það eru kannski svolitlar ýkjur að segja að hjarta mitt hafi verið við það að bresta en það seig þó alla vega sem nemur einu rifbeini. Þó vissi ég á hverju var von því ég heimsótti skólann fyrir hálfu öðru ári. Ég held að það hafi aðeins dregið úr fallinu.

Sölunefndin 1  x

Sölunefndin 2

Nú er ég búin að færa húsgögn, setja gardínurnar í felubúning með því að festa mynstrað sjiffon utan yfir þær, fá mér gólflampa, setja upp lítil veggteppi eftir mig á veggina og þennan líka fína efnisbút eins og hið besta listaverk. Ég hef líka skipt um yfirbreiðslu á stólnum skelfilega. Margir leggja hann á hliðina og nota hann sem borð. Hann er ómeðfærilegri en ruslagámur og ámóta smekklegur. Þangað til ég datt niður á þetta fallega efni faldi ég stólinn með grænu flísteppi eins og sést á myndum í fyrri færslunni. Púðana fékk ég á sjokksölu í The Pier. Annað sem ég hef keypt var á útsölu eða svo ódýrt að það þurfti ekki að leita meira. Það hvarflar ekki að mér að eyða fúlgum fjár í þetta herbergi því ekki fer ég að dröslast með endurbæturnar með mér. En huggulegt skal það vera, svo langt sem það nær.

Ég var svolítið svekkt yfir staðsetningunni í húsinu til að byrja með en áttaði mig svo á öllum kostunum: það snýr frá bílaplaninu svo það er hljóðlátara, er í norðurátt svo það er svalara og ég get haft dregið frá gluggunum í hitasvækju á daginn, það hefur útsýni í stað þess að ég mæni á risa-campus-blokk American Universiti hinu megin við planið. Ég horfi á laufkrónur trjánna alveg upp við gluggann svo ég sé ekki til himins og í vetur þegar laufin eru fallin hef ég himininn eins og hann leggur sig því engar eru byggingarnar sem ná upp í sjónlínu héðan. Svo er ég bara á besta stað eftir allt saman ef allar breytur eru teknar með í reikninginn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæhæ!

Þetta er orðið alveg dæmalaust huggulegt hjá þér. Greinilegt að stílistafræðin hafa brotist upp á yfirborðið og fengið að njóta sín. Hafðu það sem best.

Með kærri kveðju,

Guðrún

Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 12:09

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Þetta er allt annað. Þvílíkur munur. Miklu hlýlegra og persónulegra. Gaman að fylgjast með þér. Gangi þér vel Ólöf mín. Kær kveðja úr Þorlákshöfn.

Sigurlaug B. Gröndal, 22.9.2008 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband