16.9.2008 | 23:01
Bank, bank, einhver heima?
Loksins tókst mér að komast í bankann í dag. Það er stutt að ganga í næsta útibú sem er í krúttlegu, frístandandi múrsteinshúsi. Þetta var afar heimilislegt því til að komast í biðröð og fá afgreiðslu þurfti ég fyrst að skrifa mig inn í gestabók, svona af gömlu gerðinni með penna á blað. Það var heldur enginn vopnaður vörður við dyrnar. Hann kom reyndar inn á meðan ég beið, hefur kannski þurft að fylgja starfsmanni í einhverjum viðvikum sem gera miklar öryggiskröfur.
Þessi mynd er úr öðru útibúi en ósköp svipuðu hvað hönnun varðar. Ætli það hafi ekki verið um tíu gjaldkerastúkur en aðeins einn gjaldkeri. Hún sat með hönd undir kinn eftir að hafa afgreitt kúnna - nánast eins og hún ætti von á að mega bíða enn um stund. Rólegt útibú atarna.
Ég stofnaði bankareikning stuttu eftir að ég kom og gögnin hafa verið að tínast inn um lúguna hjá mér síðan. Fyrst debetkortið, svo lykilnúmerið, ýmsar tilkynningar út af nýjum reikning og svo loks eitt gluggaumslag. Já, þá fyrst hefur maður lifað þegar maður hefur fengið gluggaumslag. En það var nú bara reikningsyfirlit allra minn auðæva. Ég er nú hrædd um að aurarnir fari fyrir lítið ef íslensk stjórnvöld fara ekki að grípa í taumana svo það virki og hefti þetta gengdarlausa gengisfall krónunnar. Ætli ég verði ekki bara að halda bílskúrssölu í næsta fríi heima eða senda yngri soninn út með tombóludót.
Athugasemdir
Það er fínt að hafa bískúrssölu þar sem enginn er bílskúrinn.
Snorri Halldórsson (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 13:16
Svo má alltaf selja sumt af listsköpuninni á bílskúrssölu vestanhafs!
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 23:02
Ég er satt að segja að byrja að örvænta um eigin listsköpun vegna tímaleysis og hrædd er ég um að könnunarferðum mínum fari fækkandi af sömu sökum. En sjáum hvað setur. Það var laumað að mér lestrartrixi í morgun og ég ætla að sjá hverju það skilar mér.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 18.9.2008 kl. 00:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.