13.9.2008 | 23:13
Góða veislu gjöra skal
Það reyndust mér mikil búdrýgindi að söfnuðurinn í Mount Olivet, meþódistakirkju í Arlington, kom færandi hendi með kvöldmat handa okkur nemendunum. Mötuneytið er aðeins opið fjóra daga í viku svo við sjáum um okkur sjálf hina dagana við heldur bágbornar aðstæður. Ég var rétt ófarin niður að elda þegar mér bárust boðin um "Community Dinner" og á ég því enn til góða steiktu kalkúnabringuna sem ég keypti á ofurtilboði fyrir viku og frysti. Hún fer í ofnrétt sem ég svo frysti í skömmtum. En nóg um það.
Hlaðborðið sem okkur var boðið upp á var fjölbreytt og hið girnilegasta. Ekki einasta fékk ég kvöldmat í dag heldur fékk ég líka afganga til að eiga á morgun. Þegar ég spurðist fyrir um spínat með pólentu var mér bent á að ein úr hópnum, Lisa, hefði eldað hann. Ekki einasta fékk ég leiðbeiningar um hvernig ég skyldi malla hann heldur góðan slatta af elduðu spínati sem ég svo frysti. Lisa sagði mér að spínatkássuna gæti ég fengið mér með ommilettu, inn í samloku, með maísbrauði, bætt í hana tómötum eða notað í böku. Fyrir nú utan að kaupa mér hrað-pólentu og skella sjálf í einn svona spínatrétt sem mér fannst svo góður.
Ýmsir söfnuðir munu víst færa okkur stundum mat á laugardögum. Þetta er rausnarlegt góðverk og mikil gjafmildi. Við vitum ekki með fyrirvara hvort það kemur matur svo ætli ég plani þá ekki frekar að elda á föstudegi. Föstudagur á reyndar að vera flakkdagur hjá mér, þ.e. ef ég ætla á flakk þá á nota ég föstudag og gríp mér eitthvað hentugt í helgarinnkaupum á leiðinni heim. En þetta þarf nú allt að vera eftir hjartslætti eins og hjá öllum hagsýnum húsmæðrum.
Athugasemdir
Þetta er Ameríkananum líkt að koma með færandi hendi. En er skólinn þinn ekki Baptista skóli?
Kirkju söfnuðir spila stórt hlutverk í Bandarísku þjóðlífi. Bandarískar fjölskyldur eru oft tvístraðar á milli landshluta og þá verður kirkju söfnuðurinn oft sem önnur fjölskylda. Það getur skipt sköpum fyrir eldra fólk að vera safnaðar meðlimir sérstaklega þegar það er hætt að geta keyrt og þarf að komast til læknis.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 14.9.2008 kl. 00:34
Wesley Theological Seminary er á meiði meþódista. Annars þætti mér flott ef söfnuðir láta það ekki skipta máli hvort skólar séu á þeirra línu eða annarra og gefi nemendum mat án frekari vangavelta. Nóg er af kirkjunum hér sýnist mér.
En þú segir nokkuð, ég þyrfti að koma mér upp sóknarkirkju.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 14.9.2008 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.