10.9.2008 | 02:39
Grænmeti er góðmeti
Caleb litli átti stjörnuleik með barnapíunni, Samantha, þegar ég fór út eftir hádegi í dag. Um leið og ég steig út á stétt sagði hann ákveðinn, "Þú mátt ekki sjá hvað við erum að gera". Ég sagði þá að það hlyti að vera eitthvað ákaflega spennandi. Þá brosti hann út undir eyru og spurði hvort ég vildi leika við þau. Svo ég spurði á móti hvort ég mætti það og það var auðsótt svo fremi að ég vildi teikna LarryBoy. Ég var til í það ef Caleb væri til í að hjálpa mér því ég vissi ekki hvernig LarryBoy liti út. Það var auðsótt og fékk ég greinargóðar leiðbeiningar og leiðréttingar eftir því sem þörf var á. Það mátti ekki nokkur maður ganga svo hjá að sá stutti reyndi ekki að lokka til leiks en margir sögðust illa til þess í sveit settir - ýmist á leið á skrifstofuna, í fínu fötunum, kunnu ekki að teikna LarryBoy eða vissu ekki hver hann er.
Svona fyrir þá sem ekki vita, enda ég nú öllu fróðari, þá er LarryBoy ein hetjanna í Veggie Tales sem framleitt er af "Big Idea" með því markmiði að efla andlegt og siðrænt samfélag með skapandi fjölmiðlun, svo ég vitni nú í vefsíðuna, enda komin með LarryBoy og félaga hans á hreint.
Ritað þriðjudaginn, 9. september
Athugasemdir
Ég sé að þú ert að nema á öllum vígstöðvum
Dásamlegt þegar fullorðna fólkið leyfir sér að ganga í barndóm endrum og eins
Góða helgi mín kæra
Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 08:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.