8.9.2008 | 02:22
Íslenskunemar í Washington DC
Hér í Washington hittist vikulega hópur innfæddra sem lærir íslensku á eigin spýtur. Þennan hóp fann ég í gegnum vefsíðuna Meetup sem hýsir tengslanet þúsunda hvers kyns áhugahópa víða um heim. Hópurinn hittist í Pálínuboði í heimahúsi þetta skiptið og horfðum við saman á kvikmyndina "Djöflaeyjuna".
Félagar báru á borð kynstrin öll af íslensku góðgæti. Gestgjafinn, Matthew, bar fram Fjallagrasamjólk, Veronika bakaði Ástarpunga, Joe gerði síldarsalat með eplum og rauðrófum, Jessica hafði bakað rúgbrauð og Noah kom með Reyka Vodka og Síríus súkkulaði. Útslagið gerði skyráskorun Joe, "Þekktu Skyrið", þar sem bera þurfti kennsl á íslenskt skyr meðal annarra mjólkurafurða. Eins og í öllum rammíslenskum veislum voru fjölmargar kræsingar aðrar á borðum og laumaði ég þar að lakkrísnum góða sem ég maulaði hér á í fyrri færslu.
Það var, satt að segja, svolítið ævintýralegt að fara í heimsókn á bandarískt heimili og fá íslenskar veitingar og íslenska afþreyingu ofan í íslenskar umræður. Inn á milli fannst mér þau öll vera Íslendingar. Ég dáist að fólki sem tekur það upp hjá sér að læra móðurmálið mitt. Mér finnst það jaðra við sérvisku og velti því fyrir mér í aðra röndina hvort það sé allt í lagi að umgangast slíka einstaklinga.
Ein í hópnum er í doktorsnámi í mannfræði við háskólann hérna við hliðina á mér. Við eigum örugglega eftir að hittast á skólatíma. Þetta er í rauninni frekar íslenskt fyrirbæri: að þvælast út í heim og finna heimtaugina í næsta húsagarði.
Skyldi einhver íslensk stofnun eða félag styðja við starf slíkra hópa í íslenskunámi?
Athugasemdir
Sé ég rétt á neðstu myndinni? Var líka harðfiskur?
Snorri Halldórsson (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 08:18
Það er dásamlegt að geta vökvað ræturnar sínar við og við. Ég tek reyndar undir með þér að félagar þínir séu haldnir einhverri þráhyggju nú eða sérvisku. Hvað fær venjulegan Ameríkana í hitamollunni í D.C. til að setjast niður og gúffa í sig síld og skyri yfir Djöflaeyjunni??? Gott að það skuli vera Mannfræðingur í hópnum. Held reyndar að mannfræðingurinn sé að rannsaka hópinn. Þetta er kannski hluti af doktorsverkefni hennar?
Guðrún mágkona (IP-tala skráð) 8.9.2008 kl. 10:27
Mikið er þú sniðug Ólöf að finna þennan hóp. Frábært hjá þér. Íslendinga félagið í Washington D.C er með jóla bazaar þann 15 nóvember þar sem hægt að kaupa íslenskar matvörur. Viss um að þessi hópur hefði gaman af að líta við.
Whole Food selur íslenskt skyr, suður súkkulaði og stundum fisk.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 9.9.2008 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.