Í hitamóki

Það var heitt í dag, svo heitt að þegar ég fór út í frímínútum um tvöleitið var eins og ég gengi í gengum stífan svamp og lungun fylltust af steypu en ekki fersku lofti. Það er víst svona heitt því nú haustar að og þá gefur sumarveðrið yfirleitt hressilega í. Hitinn verður orðinn notalegur í október. Á mínu heimili heitir það nú bara sumar. Einu ummerki haustsins sem ég sé er litur laufblaðanna. Þeim gulu fjölgar og falla til jarðar.

Skirnarfontur WTSÍ kvöldstillunni var messa úti í skólagarðinum undir skjólsælum trjám milli húsa. Það bærðist ekki loginn á kertum sem stóðu á altarinu. Það er ný sýn að sjá fólk ganga berfætt í grasinu til altaris og taka við efnunum, svolítið Jesúlegt. Sjálf var ég klædd í stuttbuxur og ermalausan bol, nokkuð sem ég hef aldrei áður gert við guðsþjónustu. Það var ekki nokkur vegur að vera í skálmum og ermum. Ég fann til með prestinum sem var í síðri ölbu yfir eigin fatnaði. Það var þó ekki á henni Lucy Hogan að sjá að henni væri heitt, ekki heldur í hamsi. Hún hefur áheyrilegan ræðustíl, drífandi, hnittin og oft íbyggin. Mér var ráðlagt að taka predikunarnámskeið hjá henni ef mig langaði á slíkan kúrs. Hér er líka annar kennari í predikunarfræðum þar sem fólk getur drukkið í sig alla takta blakkra eldklerka og verið hreykin af því. Það gæti líka verið ágætis viðsnúningur fyrir mig að taka það upp.

En núna sit ég og reyni að negla saman handrit að kórlestri ritningartexta. Það er áhugavert miðlunarform í stað þess upplesturs sem við eigum að venjast á Fróni. Ætli ég taki ekki fyrir guðspjall næsta sunnudags um son ekkjunnar í Nain.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heitt, heitt, heitt. Það er annað en hér. Það er farið að hausta hér.

Snorri Halldórsson (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 09:17

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Það er ekki að furða að mér hafi verið heitt. Hitinn fór í 35°C í gær.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 5.9.2008 kl. 01:45

3 identicon

þrjú orð, sem duga við hita þegar "indian summer" stendur yfir:

Hör, silki, sandalar.

Gleyma öllu sem er úr bómull. Klæða af sér hitann.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 5.9.2008 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband